Um verðþróun á soja
24.05.2012
Undanfarna daga hafa borist fréttir að miklum verðhækkun á sojamjöli, sem er einn af aðal próteingjöfum í fóðri hér á landi sem og annars staðar. Hefur þar komið fram að verðhækkanir það sem af er ári séu um og yfir 50%. Það er vissulega rétt að verðhækkanir hafa verið umtalsverðar síðustu mánuði, en nauðsynlegt er að skoða þá þróun yfir lengri tíma. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, sem fengin er frá dönsku upplýsingaveitunni kornbasen.dk og sýnir verðþróun í Danmörku (d. sojaskrå) frá nóvember 2009 til maí 2012, hefur verð á soja verið mjög sveiflukennt. Í upphafi árs 2011 var verðið hátt, en lækkaði nær samfellt eftir það og náði lágmarki í árslok. Af þessu má ráða að mjög miklu skiptir hvaða tímabil er lagt til grundvallar þegar verðþróun aðfanga til fóðurgerðar er metin.
Einnig er hægt að afla upplýsinga um verð á soja á heimasíðu International Grains Council, þar sem sjá má að verð á því hefur heldur farið lækkandi á ný undanfarna daga./BHB