Beint í efni

Um nautgripa herpes vírus

08.10.2012

Sem kunnugt er hafa fundist mótefni gegn nautgripa herpes vírus í kúm á einu búi hér á landi, en þetta kom í ljós í kjölfar skimun Matvælastofnunar vegna smitsjúkdóma í nautgripum. Sýni voru tekin á búum um allt land en bú þessi voru valin samkvæmt tilviljunarkenndu úrtaki. Eins og áður segir reyndust sýni frá einu búi vera jákvæð, þ.e. kýrnar höfðu myndað mótefni vegna þessa vírusar.

 

Engir gripir eru þó með einkenni veikinda, sem bendir til þess að ef sjúkdómurinn hefur komið upp þá hafi það gerst fyrir einhverju síðan. Matvælastofnun vinnur nú áfram með málið en á meðan frekari rannsóknir fara fram hefur verið sett á viðkomandi bú lífdýrasölubann.

 

Herpes vírus er vel þekktur erlendis en mótefni gegn honum hefur ekki greinst hér á landi áður. Þessi vírus er ekki hættulegur fyrir fólk og smitast ekki með afurðum. Þessi herpes nautgripavírus er ekki lengur til í helstu nágrannalöndum Íslands, en tekist hefur að útrýma honum að mestu. Sé vírussmit í gangi, getur hann valdið mismunandi sjúkdómseinkennum eftir þeim stofni sem vírusinn er af.

 

Helstu einkenni sýkingar af algengustu gerð þessa vírusar (sk. BHV-1) eru öndunarfæraeinkenni allt frá mjög mildum upp í erfiða lungnabólgu. Það fer allt eftir því hvort bakteríur eru til staðar sem nota „tækifærið“ á meðan vírussmitið gengur yfir, yfirleitt á 4-6 dögum. Þetta smit greindist oft á eldisbúum fyrir nautakjöt áður en það tókst að útrýma því í helstu nágrannlöndum okkar. Einkenni eru hiti, lystarleysi, hósti, slefa, slímrennsli úr nefi, augnbólgur og rauðar nasir. Þetta gengur svo yfir á 4-5 dögum þegar dýrið myndar mótefni og sýkist ekki á ný.

 

Önnur gerð smits getur verið fósturlát allt að 100 dögum eftir smit og virðist fósturlát helst koma upp á síðari hluta meðgöngu, þó svo ekkert sé útilokað í því sambandi.

 

Enn ein útgáfan af þessum smiti er títt þvaglát, slím frá skeið og gripir lyfta hala oft. Skeiðin verður bólgin og litlar blöðrur myndast í slímhimnunni og verða síðar sár. Ef ekki koma til bakteríur, líkt og í áðurnefnda tilfellinu, jafnar skepnan sig á 10-14 dögum af þessari gerð smitsins.

 

Í dag og næstu daga munu helstu sérfræðingar landsins vinna að því að greina nánar hvaða gerð af herpes nautgriparvírus hefur verið þarna á ferð á sínum tíma og njóta þeir aðstoðar smitsjúkdómasérfræðinga frá Danmörku. Ekki er ljóst með hvaða hætti  þessi vírus hefur getað borist inn á búið, en hingað til hefur verið talið að vírusinn lifi einungis í stuttan tíma utan „hýsils“ en smit berst oftast með líkamsvessum s.s. munnvatni og sæði og einungis mjög stutt með lofti (að því að vita sé). Eitt líkt tilfelli kom upp í Danmörku, árið 2004, þar sem á engan hátt var hægt að finna skýringu þess að smit barst inn á bú. Þar á undan kom síðast upp tilvik árið 1992, sem segir sitt um hve óalgengt það er að finna þennan vírus núorðið. Öll hin Norðurlöndin eru einnig laus við virkt form þessa vírusar.

 

Næstu skref í þessu máli eru að taka sýni til veiruræktunar í því skyni að greina nákvæmar gerð veirunnar. Jafnframt verður gerð könnun á mögulegri útbreiðslu veirunnar. Þetta er nauðsynlegur grunnur að ákvarðanatöku um frekari aðgerðir, en á meðan verður bann við lífdýrasölu áfram í gildi. Allar nánari upplýsingar veitir Matvælastofnun/SS.