Beint í efni

Um innflutning á lifandi dýrum og ESB-umsókn stjórnvalda

19.02.2013

Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, ritar grein í Morgunblaðið þar sem hann svarar Guðna Ágústssyni, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, um málefni tengd ESB-umsókn stjórnvalda og afstöðu Bændasamtakanna. Greinin er birt hér í heild sinni.

Guðni spyr

Guðni Ágústsson birti grein í Morgunblaðinu nýlega þar sem hann spyr um málsmeðferð á þeim hluta ESB-aðlögunar sem snýr að innflutningi á lifandi dýrum til Íslands (12. kafli) og afstöðu Bændasamtaka Íslands.

Hugleiðing Guðna tengist umræðu um samningsafstöðu í 12. kafla aðlögunar að ESB. Þar hafa íslensk stjórnvöld lagt fram sína afstöðu. Síðastliðið sumar fékk utanríkismálanefnd drög að samningsafstöðu sem kynnt var hagsmunaaðilum. Bændasamtök Íslands og fleiri gerðu alvarlegar athugasemdir við textann og eftir miklar umræður breytti utanríkismálanefnd nokkuð samningsafstöðunni. Óhætt er að segja að hún varð mun skárri en upphaflegi textinn og er ástæða til að þakka nefndinni fyrir ítarlegar umræður og vinnu við málaflokkinn. Hins vegar er ekki að finna í textanum afdráttarlaust skilyrði af Íslands hálfu. Beinskeytt ákvæði hefði þurft að vera í samningsafstöðunni er tæki af allan vafa um opnun á innflutningi á lifandi dýrum, fersku kjöti og öðru sem væri alls ekki umsemjanlegt af Íslands hálfu. Slíkt orðalag mátti ekki standa að mati embættismanna, því það yrði til að stuða viðræðuaðila okkar. Það er skýringin sem gefin er á hinni veiku afstöðu. Sendimenn ESB, sem Bændasamtökin hafa fundað með, hafa sagt að slík undanþága fyrir Ísland geti ekki verið í boði og í raun varað við tali íslenskra stjórnmála- og embættismanna um slíkt.

Er samstaða um innflutningsbann á lifandi dýrum?
Það er semsagt sett fram að Ísland eigi áfram að geta lokað á slíkan innflutning. Það atriði eitt og sér er gríðarlega mikilvægt, eins og Guðni rekur í grein sinni. Ég vil sérstaklega benda á öflugan stuðning og aðkomu og málafylgju sérfræðinga okkar í sjúkdómum dýra. Þeir hafa barist fyrir áframhaldandi takmörkunum á innflutningi. Ekki má heldur gera lítið úr afstöðu stjórnmálamanna í utanríkismálanefnd sem studdu það sjónarmið. Það sem veikir málið er að formaður nefndarinnar, sem styður afstöðuna, skyldi ekki leyfa pólitíska samstöðu í nefndinni um svo mikilvægt mál. Afgerandi meirihluti hennar studdi meginsjónarmiðið. Jón Bjarnason, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins höfðu þá þegar lýst fullum stuðningi við mun sterkari afstöðu.

Bændasamtök Íslands settu fram sjö varnarlínur í upphafi alögunarferlisins og bann við innflutningi á lifandi dýrum er ein af þeim. Telja samtökin að samningsafstaðan sé viðunandi svo langt sem hún nær, en algjörlega vantar í hana hvort Ísland meinar eitthvað með framsetningu hennar.

Slæm samviska
Um aðlögunarferlið er sagt að nú sé svokallað hlé á vinnu vegna landbúnaðarkaflans. Það hentar vel stjórnmálamönnum sem bera ábyrgð á þeim athöfnum, því sá texti sem nú liggur fyrir sem samningsafstaða er í engu samræmi við alvöru málsins, sem er framtíð íslensks landbúnaðar innan ESB. Málið virðist alls ekki mega verða til umfjöllunar í komandi kosningabaráttu. Reyndar er reynt að gera aðildarumsókn að aukaatriði í komandi alþingiskosningum. Það sýnir ekki góða samvisku. Ég hélt að menn ættu að vera stoltir og vígreifir yfir öllum þeim landvinningum sem unnist hafa síðastliðin fjögur ár, eins og meintan skilning ESB á sérstöðu okkar lands.

Þá hefur heyrst að viðtökur ESB á samningsafstöðu byggðakaflans séu blendin. Frakkland hefur sem dæmi sagt að samkvæmt innsendri afstöðu meini Ísland ekkert með umsókn sinni. En þetta eins og margt annað, raunveruleg og efnisleg umræða um athafnir íslenskra stjórnvalda fást aldei ræddar hér á landi.

/Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands