Beint í efni

Um hvað er ASÍ að tala?

04.07.2006

Ágætu lesendur.

Á heimasíðu ASÍ er að finna eftirfarandi texta:

Ekki eftir neinu að bíða fyrir íslenskan landbúnað
Ein helsta ástæða hás matvælaverðs á Íslandi er hátt verðlag á innlendum búvörum í skjóli þeirrar innflutningsverndar sem landbúnaður nýtur. Íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað hrófla við þessu fyrirkomulagi fyrr en samkomulag myndi nást á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um aukið frelsi í heimsviðskiptum. Eftir að viðræður um þessi mál sigldu í strand nú um helgina er ljóst að það getur tekið nokkur ár til viðbótar að ná slíku samkomulagi.

Það er því ekki eftir neinu að bíða; íslensk landbúnaðaryfirvöld, bændur og neytendur eiga nú þegar að taka höndum saman um löngu tímabærar aðgerðir. Nauðsynlegt er að standa þannig að verki að allir hafi af því einhvern ábata. Taka verður ákveðin skref í lækkun tolla á kjöti, mjólkurvörum, ostum, smjöri, eggjum og útiræktuðu grænmeti. Í staðinn má koma þeim stuðningi sem í þessum tollum hefur falist fyrir í beinum greiðslum til búa. Bændur og landsbyggðarfólk gætu notað slíkar greiðslur til að hefja nú þegar aðlögun að breyttum aðstæðum í atvinnumálum. Neytendur fengju hins vegar aukið val um hvaða matvæli þeir legðu sér til munns, gæði þeirra og verð.

 

Látum nú vera þótt ASÍ haldi því ranglega fram að verndartollarnir séu helsta ástæðan fyrir háu matvælaverði á Íslandi. Það hefur margsinnis verið á það bent að ótollaðar innfluttar vörur eru oft mun dýrari hérlendis en erlendis. Látum það einnig liggja milli hluta þótt það gleymist að Íslendingar hafa tekið á sig skuldbindingar gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og væntanlega samrýmist hugmyndin ekki þeim skuldbindingum. Sleppum því líka að það hefur margsinnis komið fram hjá starfsfólki Utanríkisþjónustunnar að það er óþekkt fyrirbæri að þjóðir hendi tollum einhliða með þessum hætti. Það sem einkum vekur athygli mína við þennan texta er setningin ,,Bændur og landsbyggðarfólk gætu notað slíkar greiðslur til að hefja nú þegar aðlögun að breyttum aðstæðum í atvinnumálum“.
Um hvað er ASÍ að tala ? Er þetta yfirlýsing um markvissa úreldingu íslensks landbúnaðar og afleiddra starfa á landsbyggðinni ? Ef svo er, þá er útspil Alþýðusambands Íslands með algjörum ólíkindum.