Beint í efni

Um áramót

31.12.2018

Það er að mörgu að hyggja í félagsskap okkar kúabænda þessi misserin og hafa síðustu ár verið viðburðarrík og fjölbreytt. Innleiðing nýrra búvörusaminga hefur verið leiðarstefið í starfsemi LK undanfarin ár og er nú komið að fyrstu endurskoðun þeirra og gefst þá tækifæri til að sníða þá til og láta þá falla betur að þörfum okkar í síbreytilegu umhverfi.

Kosning um framleiðslustýringu, „kvótakosningin“, markar upphaf endurskoðunarvinnunnar. Stefnt er á að sú kosning fari fram núna í janúar og endurskoðun samningsins mun byggja á grundvelli niðurstöðu hennar. Eins og eflaust margir muna var lagt upp með -þegar núverandi samningur var skrifaður- að greiðslumarkskerfið skyldi aflagt bæði sem framleiðslustýring og sem viðmið fyrir beingreiðslur. Þannig hefði framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu verið aflögð og öllum frjálst að framleiða eins og þeir vilja. Ein af forsendunum sem lágu fyrir á sínum tíma, og stórar ákvarðanir voru byggðar, á voru tilgátur um það að íslenska kúakynið væri komið á einhvers konar endapunkt og gæti ekki framleitt meira en um 125 milljón lítra af mjólk og þess vegna væri óhætt að gefa alla framleiðslu frjálsa, hér yrði aldrei hægt að fullnægja innlendum markaði hvort eð er. Þetta var sagt, þetta voru ráðleggingarnar, á þessu var byggt þegar fyrstu drög nýrra búvörusamninga voru hripuð á blað. Þetta hefur reynst fullkomlega rangt og íslenskir kúabændur framleiða á þessu ári sennilega um 153 milljónir lítra. Þetta sýnir okkur að það getur reynst varasamt að taka stórar ákvarðanir nema að ígrunda vel hvaða skref eru stigin.

Það hefur semsagt, síðan þessar kenningar voru smíðaðar, komið ljós að íslenskir bændur eru fullfærir um að framleiða allt það magn sem þarf til að sinna okkar sístækkandi innanlandsmarkaði fyrir mjólkurvörur.

Ein af grundvallarforsendum þess að mjólk sé framleidd á öllu landinu er þessi magnaða samstaða um flutningsjöfnuð á mjólk, þ.e. að það kostar jafnmikið að sækja mjólk til bænda hvar sem þeir búa. Einnig búum við við svokallaða söfnunarskyldu sem tryggir það að mjólk er sótt og keypt af okkur í hvaða magni sem er, þó ekki öll á sama verðinu og það er einmitt hryggjarstykkið í kerfinu okkar þ.e. við fáum fullt verð fyrir mjólk innan greiðslumarks en svo lægra fyrir aðra mjólk sem minna fæst fyrir á markaði.

Þetta er í raun magnað fyrirkomulag sem við kúabændur búum við en það getur verið vandi að umgangast slíkt af virðingu. Það er í okkar valdi og það er okkar hagur að viðhalda jafnvægi í framleiðslu mjólkur. Það verður alltaf hagkvæmast fyrir okkur sem bændur og okkur öll sem þjóð að framleiðsla búvöru sé í takt við neysluna því það hefur enginn neitt upp úr því að framleiða vöru sem ekki er markaður fyrir sem svo leiðir af sér að nauðsynlegt reynist að selja hana undir kostnaðarverði.

Nú er ég ekki að halda því fram að við eigum að leggja alla útflutningsdrauma á búvöru á hilluna. Við eigum alltaf að hafa vakandi auga fyrir því ef það skapast rúm á mörkuðum erlendis sem geta borgað viðunandi verð fyrir okkar framleiðslu. Í tilfelli okkar kúabænda eigum við öflugan iðnað sem sífellt leitar nýrra tækifæra og er það vel. Við eigum á hverjum tíma, eins og framleiðslumálin hafa verið hjá okkur, næga mjólk til að stunda tilraunastarfsemi á nýjum mörkuðum. Því eigum við hiklaust að halda áfram en munum samt að það er dýrt að framleiða mjólk á Íslandi og við skulum passa okkur á því að búa ekki þannig um hnútana að við hljótum skaða af til lengri tíma litið.

Kosið um kerfi
Kosningin núna í janúar snýst í sinni einföldustu mynd um það hvort bændur vilji viðhafa kvótakerfi áfram eða hvort að gefi eigi framleiðsluna frjálsa.

Það gefur auga leið að ef framleiðslan verður gefin frjáls, þ.e. kvótinn kosinn af, að þá munu stoðirnar sem ég nefndi hér að ofan hverfa um leið. Ef allir geta framleitt eins og þá lystir þá eðlilega eykst frameiðslan (það er búið að afsanna þetta með 125 milljón lítrana) og er þá unnt að leggja söfnunar- og kaupskyldu á iðnaðinn okkar? Telja bændur að þegar verðið til þeirra fer að lækka vegna of mikillar framleiðslu (afleiðing þess að allir framleiða eins og þeir geta) að flutningsjöfnunin haldi? Eða er líklegra að stórir vel staðsettir framleiðendur geri kröfu um lægri flutningskostnað fyrir sitt bú? Er líklegt að þegar verð á hverjum lítra lækkar fari bændur að framleiða enn meira til að halda í óbreyttar heildartekjur? Svari hver fyrir sig.

Ef kvótinn verður kosinn áfram þá er brýnast að það komist markaður í gang með greiðslumark. Það er nauðsynlegt að greiðslumark geti leitað þangað sem það vill vera ef svo má segja. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að það er uppsöfnuð spenna í viðskiptum með kvóta. Þessi spenna er tilkomin vegna þess fyrirkomulags sem nú er við lýði þ.e. þessi leið sem skrifuð var inn í búvörusamninginn á sínum tíma. Þessu þarf að breyta ef við ætlum að ná aftur eðlilegri hreyfingu á viðskipti með greiðslumark.

Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni að ég tel stýringu nauðsynlega í mjólkurframleiðslu á Íslandi. Ég hef þá trú að einmitt það kerfi sem hefur verið við lýði í nokkra áratugi hefur gert kúabúskapinn svo sterkan og framsækinn sem raun ber vitni. Það er þó á hverjum tíma nauðsynlegt að rýna kerfið til að ganga úr skugga um að það sé að skila því sem það á að gera. Það er þá nauðsynlegt að átta sig á því hverju við viljum að kerfið skili. Viljum við ekki að það skili góðri afkomu okkar bændanna, sanngjörnu verði og miklum gæðum til neytenda, að það tryggi matvælaöryggi og að opinberir fjármunir nýtist landi og þjóð? Viljum við ekki að það stuðli að dreifðri byggð og blómlegum sveitum? Viljum við ekki að það stuðli að lágmörkun á ónauðsynlegum innflutningi matvæla sem unnt er að framleiða hér og þannig losna við sótsporið sem felst í flutningi vara yfir höfin?

Ég held að allir, bæði bændur og neytendur, geti svarað þessum spurningum játandi og ég tel að öflugt kerfi í anda þess sem verið hefur við lýði um árabil sé verkfærið til að ná þessum markmiðum.

Vonandi auðnast okkur bændum, við kjörborðið núna í janúar, að kjósa þannig að búgreinin okkar búi áfram við aðstæður sem tryggir festu í rekstrarumgjörð greinarinnar, afkomu bænda og sanngjarnt vöruverð.

Í lok desember 2018

Arnar Árnason, Formaður LK