Beint í efni

Um áramót

30.12.2017

Það hefur margt á dagana drifið í rekstri Landssambands kúabænda á árinu sem er að líða. Kannski er eðlilegast að byrja að minnast á þann pólitíska óróleika sem einkenndi landbúnaðarmálin. Fyrrverandi landbúnaðarráðherra hafði lítið til málanna að leggja með að finna lausnir á meintum vandamálum en hafði ríkann vilja til að breyta landbúnaðarkerfinu sem við búum við, vissi bara ekki hvernig. Ég held að við horfum nú fram á betri tíð, jafnvel með blóm í haga, og strax skynjar maður breytt viðhorf og mikinn vilja til að vinna saman að lausnum á þeim málum sem upp koma.

Rekstur landssambandssins okkar hefur gengið samkvæmt áætlun. Verkefnið er viðvarandi og mikill tími hefur farið í afla fleiri félaga en eins og flestir vonandi vita þarf að ganga í LK með upplýstu samþykki. Töluvert hefur þokast í rétta átt en betur má ef duga skal. Uppbygging einangrunarstöðvarinnar á Stóra-Ármóti er á lokametrunum og þangað eru komnar kýr og búið að setja upp fósturvísa. All mikill tími fór í að veita sláturleyfishöfum aðhald nú þegar verið er að taka nýtt kjötmatskerfi í notkun á landinu en sú vinna hefur fyrst og fremst falist í rýni á nýjar verðskrár sem búnar hafa verið til og teknar í notkun samhliða nýju mati. Sú vinna hefur skilað nokkrum árangri þar sem búið er að uppfæra verðskrár eftir gagnrýni okkar, auk þess sem sláturleyfishafi hefur óskað eftir aðkomu landssambandsins að smíði nýrrar verðskrár.

All nokkur tími fór nú á haustdögum í endurskoðun á gildandi reglugerðum með búvörusamninginum, en sú vinna er unnin á vegum Framkvæmdanefnd búvörusamninga sem hefur í raun það hlutverk að láta samninginn virka og að taka á þeim málum sem upp kunna að koma í framkvæmdinni.

Það er kannski frjálslega farið með sannleikann að segja að reksturinn hafi gengið samkvæmt áætlum því það var ekki í neinni áætlun að framkvæmdastjórinn okkar færi í fæðingarorlof. Engu að síður fór Margrét Gísladóttir í fæðingarorlof um mitt ár og fæddist þeim hjónaleysum lítill drengur sem dafnar vel og eigum við von á Margréti aftur til starfa nú um áramótin. Ég vil fyrir hönd LK óska þeim Margréti og Teiti innilega til hamingju með snáðann.

Axel Kárason, nýútskrifaður dýralæknir frá Danmörku, hljóp í skarðið fyrir Margréti og hóf hann störf hjá okkur þann 1. júlí s.l. Um leið og ljóst var að við þyrftum að ráða tímabundið í framkvæmdastjórastarfið tók stjórn þá ákvörðun að ráða einungis í 50% hlutfall en annars er starfið 100% (og rúmlega það). Þetta var gert í ljósi fjárhagsstöðu LK þar sem gengið hefur heldur hægar að afla félaga en á þeim byggja náttúrulega tekjurnar. Axel hefur sinnt starfinu vel en kveður okkur núna um áramótin og hverfur til annarra starfa. Við eigum samt örugglega eftir að nýta okkur krafta hans í framtíðinni. Mig langar við þetta tækifæri að þakka honum fyrir að hafa „stokkið“ út í til okkar og haldið okkur á floti í þessa sex mánuði.

Einnig tók stjórn þá ákvörðun að halda ekki sérstaka haustfundi þetta árið. Það var ekki auðveld ákvörðun enda hafa þessir fundir verið hryggjastykkið í starfsemi félagsins ásamt aðalfundi. Þetta var einkum gert af tveimur ástæðum. Fjárhagslegum og tímalegum. Í ljósi þess að við höfðum í haust aðeins framkvæmdastjóra í hálfu starfi, þá gefst ekki tími til að undirbúa slíka fundarferð en það er gríðarlega mikil vinna að skipuleggja slíkt. Fjárhagurinn er viðkvæmur og hefur haustfundaferðin verið dýrasti pósturinn í rekstri samtakanna. Í ljósi þessa var ákveðið að fella niður fundina. Í stað haustfundana verðum við að treysta á aðalfundi aðildarfélganna og tryggja að fulltrúar úr stjórn mæti á þá til að gera grein fyrir starfsemi LK.

Stefnumótunarvinna fyrir kjöt- og mjólkurframleiðslu á vegum LK er að skríða af stað. Búið er að skipa hópa bænda og annarra til að taka þátt í þeirri vinnu og verða drög að þeirri vinnu lögð fyrir næstkomandi aðalfund.

Hagsmunagæsla er viðvarandi verkefni sem aldrei líkur. Hún felst í að halda stjórnvöldum og almenningi upplýstum um málefni okkar með því að leggja fram í umræðuna allt það sem við teljum að skipti máli. Þetta felst í samskiptum við stjórnvöld, koma fram í fjölmiðlum, hafa álit á ákvörðunum sem teknar eru og snerta okkar atvinnugrein, halda á lofti sögunni og að ná að útskýra tilurð hlutanna þ.e. af hverju lítur kerfið okkar út eins og það gerir. Það er nefninlega þannig að það er ástæða fyrir öllum hlutum og gjörðum. Þessu þarf að koma á framfæri og er það í mínum huga í verkahring Landssambands kúabænda að gera það fyrir hönd okkar bænda.

Það kemur ekki af sjálfu sér að hafa sterka rödd sem getur beitt sér í umræðunni. Kúabændur tóku ákvörðun um einmitt þessi mál fyrir röskum þrjátíu árum þegar LK var stofnað. Það reyndist mikið happaskref, en nú hefur fjármögnun sambandsins breyst verulega með niðurfellingu búnaðargjalds og þá reynir enn frekar á okkur að standa þétt við bakið á samtökunum okkar með því að ganga í þau og tryggja starfið sem þar fer fram.

Núna þegar þessar línur eru skrifaðar er það ljóst að við kúabændu erum að slá enn eitt heimsmetið í mjólkurframleiðslu á Íslandi og útlitið er bjart hvað varðar framleiðslu á árinu 2018, mikið hefur verið byggt af nýrri aðstöðu, bæði ný fjós og breytingar á eldri. Vil ég sérstaklega taka fram dugnað Svarfdælinga en þar er verið að byggja á nánast öðrum hverjum bæ. Það er ekki svo langt síðan (rétt eitt ár) að menn höfðu töluverðar áhyggjur af því hvaða áhrif nýgerður búvörusamningur myndi hafa á framkvæmdavilja bænda og hvort bændur brygðust við vaxandi endurnýjunarþörf á fjósum landsins. Það reyndist sem betur fer ástæðulaus ótti og nú byggja menn sem aldrei fyrr, við erum klárlega að búa okkur undir framtíðina í mjólkurframleiðslu á Íslandi!

Fjöldi kvígna sem eru að komast á burðaraldur er góður, mikil og góð hey liggja eftir sumarið, aðstaða er í kröftuglegri uppbyggingu, það er ljóst að á margan hátt er ytra umhverfi mjólkurframleiðslunni hagfellt. Það er svo okkar bænda sjálfra að spila rétt úr þeim spilum sem við höfum á hendi. Það verða alltaf ógnanir í okkar atvinnugrein eins og reyndar öllum öðrum og við þurfum að laga okkur að breyttum tíðaranda.
Ég veit að með samstöðu og sameiginlegri sýn á það hvernig við viljum að hlutirnir þróist beri okkur gæfa til að halda mjólkurframeiðslunni áfram sterkri á Íslandi. Við höldum áfram að ræða hlutina og komumst svo að niðurstöðu sem verður okkar atvinnugrein til heilla í framtíðinni.

Að lokum við ég þakka bændum öllum og samtarfsaðilum gott samstarf á árinu sem senn rennur sitt skeið, megi öllum búnast vel og við skulum fagna hækkandi sól með bjartsýni og kraft að leiðarljósi, það hefur alltaf skilað íslenskum bændum alla leið.

Gert að jóladagsmorgni 2017 að Hranastöðum
Arnar Árnason, stjórnarformaður LK

 

MYND: Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (formaður BÍ), Arnar Árnason (formaður LK) og Axel Kárason (settur framkvæmdastjóri LK) við opnun Próteinverskmiðjunnar í Skagafirði. Myndasmiður: Ásta Arnbjörg Pétursdóttir/SS