Um áramót
01.01.2011
Það ár sem að baki er hefur verið all nokkuð annasamt á vettvangi LK og verkefnin sum hver talsverð að umfangi. Misjafnlega hefur þó gengið að þoka áfram málefnum greinarinnar og munu úrlausnir margra þeirra fylgja okkur áfram inn á nýtt ár. Þarna ráða eflaust talsverðu þær, að mörgu leiti fordæmalausu, þjóðfélagsaðstæður sem okkur eru búnar um þessar mundir í kjölfar bankahrunsins, bæði í pólitísku og efahagslegu tilliti.
Þrátt fyrir þetta hafa aðstæður greinarinnar verið á margan hátt hagstæðar. Veðurfar hefur víðast hvar verið með eindæmum gott og uppskera jarðargróða mikil að magni og gæðum. Eins hefur gengið vel með markaðsetningu afurða og athygli vekur að aukning er í sölu mjólkurvara á sama tíma og verulegur samdráttur er á dagvörumarkaði almennt. Sama gildir hvað nautakjötið varðar en aukning varð á sölu nautakjöts sem nemur nálægt 3% og verð til framleiðenda hækkuðu á árinu sem nemur 8 – 13%. Hinsvegar hefur mjólkurverð til framleiðenda ekki hækkað í rúm tvö ár og eru aðfangahækkanir á þeim tíma farnar að íþyngja rekstrinum verulega. Flest bendir til enn frekari hækkana á aðföngum næstu misseri og því er orðin afar brýn þörf á leiðréttingu mjólkurverðs.
Þessar aðstæður hafa eðlilega kallað fram umræður innan greinarinnar um ágæti verðlagskerfisins. Vafalaust er hægt að deila um hversu vel núverandi fyrirkomulag hafi reynst framleiðendum, þó er ekki annað hægt en taka undir þau sjónarmið að þörf sé á meiri sveigjanleika í verðmynduninni.
Á liðnu vori setti Landbúnaðarráðherra reglugerð um markað með mjólkurkvóta. Upphaflega voru talsverðir ágallar á reglugerðinni og nokkrar lagfæringar náðust á henni í samstarfi við ráðuneytið. Fyrsti markaðurinn var síðan haldinn 1. desember s.l. og urðu þar viðskipti með tæplega 140 þús. ltr af þeim rúmlega 900 þús. sem boðnir voru til sölu. Þó vissulega hafi ekki orðið viðskipti með mikið magn á þessum fyrsta markaði verður þó að teljast talsverður sigur að hann skyldi heppnast. Í ljósi þeirrar reynslu sem nú er fengin, er nauðsynlegt að fara yfir reglugerðina að nýju og sníða af henni frekari agnúa. Meðal annars þarf að fjölga markaðsdögum og er það eitt þeirra verkefna sem bíður fyrstu daga þessa árs.
Síðastliðið sumar var lagt fram á alþingi stjórnarfrumvarp um refsiákvæði sem ætlað var að fylgja eftir ákvæðum búvörulaga um forgang mjólkur innan greiðslumarks að innanlandsmarkaði. Afar hörð umræða varð um frumvarpið á opinberum vettvangi þar sem vegið var á köflum að rekstarumhverfi kúabænda með óvægnum og ómálefnalegum hætti. Málið fékk ekki afgreiðslu á haustþingi og óvíst er um afdrif þess hjá stjórnvöldum. Núgildandi búvörusamningar eru reistir á ákvæðum búvörulaga og ólíðandi er að óvissa sé um réttarstöðu þeirra. Nokkur vöxtur hefur verið í uppbyggingu aðstöðu til heimavinnslu á nautgripaafurðum síðustu misseri og kennir þar margra skemmtilegra grasa s.s. framleiðslu Erpstaðabúsins á skyrkonfekti. Hér er um að ræða mikilvægan sprota innan greinarinnar og í umræddu frumvarpi var gert ráð fyrir ákveðinni ívilnun til að tryggja stöðu þessara búa. Það náði þó ekki fram fremur en önnur ákvæði frumvarpsins. Nauðsynlegt er að staða þessarar framleiðslu verði tryggð jafnframt hinnar hefðbundnu og sátt ríki innan greinarinnar um fyrirkomulagið.
Unnið hefur verið að stefnumörkun fyrir greinina síðustu misseri og markaði síðasti aðalfundur LK talsvert línur hvað það varðar. Fram til þessa hefur fyrst og fremst verið unnið að gagnaöflun og skoðun forsendna. Á nýju ári verður hinsvegar farið að taka efnis niðurstöður saman og stefnt að því að næsti aðalfundur fái þær til lokaumfjöllunar. Árið 2011 er 25. starfsár Landssambands kúabænda og því vel við hæfi að ljúka gerð nýrrar stefnumörkunar í tilefni af því.
Ágætir lesendur, hér hefur einungis verið tæpt á örfáum atriðum sem unnið var að á liðnu ári og framundan eru, en hér verður látið staðar numið. Ég óska kúabændum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.