Beint í efni

Um 37.500 kúabædur hættu í fyrra í Evrópusambandinu

24.10.2003

Þróun mjólkurframleiðslunnar í heiminum öllum er með líku sniði. Nýjar upplýsingar frá Evrópusambandinu sýna að sl. tvö ár hafa 75.000 bændur hætt störfum, eða sem nemur 12% búanna. Síðustu 7 ár hefur búunum fækkað um 40% eða 370 þúsund alls. Nokkuð misjafnt er þetta eftir löndum, en þróunin er þó skörpust í Hollandi, þar sem 26% búanna hefur hætt á síðustu tveimur árum.

 

Í Danmörku hefur búunum fækkað um 17% á tveimur árum og eru nú um 8 þúsund mjólkurframleiðendur þar í landi.

 

Í Grikklandi hefur búunum fækkað um 22% á tveimur árum og í bæði Portúgal og Ítalíu nemur fækkunin um 20%. Á sama tíma nemur fækkunin einungis 7% í Frakklandi og 5% í Þýskalandi.

 

Ef litið er til talna síðustu 7 ára, nemur fækkunin í Þýskalandi um 34% og 23% í Frakklandi. Mest fækkun er þó á Spáni, þar sem 63% mjólkurframleiðenda hefur hætt sl. 7 ár.