Beint í efni

Úlfar að herja á kvígur í Svíþjóð?

30.07.2014

Í liðinni viku fundust illa bitnar kvígur í haga sunnan við Kristinehamn í Svíþjóð. Kvígurnar, sem voru eins og hálfs árs gamlar, voru með smásár víða og vantaði m.a. halann á eina þeirra. Þó svo ekki sé ljóst hvaða skepna hafi valdið þessum sárum er talið líklegt að um úlfa hafi verið að ræða. Á sama svæði misstu sauðfjárbændur ær í vor vegna úlfa, sem vel að merkja eru friðaðir í Evrópusambandinu og má ekki skjóta nema með sérstakri stjórnvaldsheimild, og því er talið líklegt að úlfar hafi einnig verið á ferðinni í kvíuhjörðinni.

 

Það gerist þó ekki oft að úlfar taki sig til og reyni við svona stórar skepnur enda oftar en ekki t.d. kindur eða geitur á svipuðu svæði sem eru töluvert auðveldari bráð. Þar sem ekki þykir fullsannað að um úlf eða úlfa hafi verið að ræða hefur ekki verið gefið út veiðileyfi á úlfa á svæðinu. Þess má reyndar geta að afar erfitt hefur reynst að fá heimild til þess að fella úlfa enda friðaðir af Evrópusambandinu og fylgir því mikil skriffinska að fá slíka heimild. Slík heimild er þó gefin út einstaka sinnum eins og sjá má af meðfylgjandi mynd af úlfi sem var felldur í Svíþjóð í fyrra eftir að hafa drepið 6 ær/SS.