Tvöfalda vísundamjólkurframleiðslu
19.01.2016
Sænsk framleiðsla á mjólk frá vatns-vísundum mun að líkindum tvöfaldast á þessu ári en öll mjólkin er notuð í framleiðslu á mozarella ostum. Reyndar er um afar litla framleiðslu að ræða enda verða kýrnar ekki nema 13 í ár, en hefur þá fjölgað um nærri helming frá árinu 2015.
Allir vísundarnir eru aldir á búinu Ängsholm sem er við þorpið Harbo í norðurhluta Uppsala. Á staðnum er lítil ostagerð þar sem mjólkin er unnin og fer svo þaðan í nokkrar verslanir. Upphaf þessarar sérstöku mjólkurframleiðslu má rekja til innflutnings á nokkrum dýrum árið 2012 og síðan hefur bústofninn verið að stækka hægt og bítandi/SS.