Beint í efni

Tveir þjarkar nóg fyrir hvert kúabú!

21.10.2017

Rannsóknasetrið í Rise stóð nýverið fyrir afar áhugaverðri rannsókn en hún gekk út á að skoða hvað þyrfti mikla orku og vinnu til þess að leysa öll véltæk verkefni á hefðbundnu kúabúi með 200 hektara lands og um 100 kýr. Niðurstöður vísindamanna Rise sýna að ef slíkt kúabú hefði yfir tveimur rafdrifnum þjörkum að ráða mætti leysa öll helstu véltæku verkefni búsins, hvort sem er utan fjóss eða innan. Orkuþörf þessara þjarka væri ekki nema 36 kW rafmótorar og þyrfti rafgeymir hvers þjarks að geta skilað 113 kílówattstundum, sem er ekki nema lítið eitt stærri rafgeymir en er í hinni þekktu bílategund Tesla Model X.

Hér er auðvitað um fræðilega útreikninga að ræða en þó afar áhugavert að skoða þetta enda er tæknin nú þegar komin, þ.e. sjálfkeyrandi vélar og tæki og telja margir stutt í að helstu verk utan fjósa s.s. sláttur og hirðing verði brátt unnin með þjörkum. Þetta kann að virka hálf fjarstæðukennt, en þá er nú rétt að minna á að bara fyrir nokkrum áratugum virkuðu væntanlega mjaltir með þjarka álíka fjarstæðukennt/SS.