Tveir mjaltaþjónar í Færeyjum!
03.09.2011
Þó svo að Færeyjar séu skammt austan við Ísland eru líklega margir hér á landi sem þekkja lítið til nautgriparæktarinnar þar. Þar starfa nú 28 kúabú í mjólkurframleiðslu og starfa þau innan greiðslumarkskerfis. Heildargreiðslumark landsins eru 7,3 milljónir lítra.
Rólvur Djurhuus er ráðunautur Búnaðarstovunnar, sem er Frammi í Dal í Kollafirði: „Færeyskir kúabændur eru með nokkuð stærri bú að jafnaði en íslenskir kollegar þeirra, en meðalbúið hér er með um 262 þúsund lítra. Flest kúabúin eru í einkarekstri en fjögur eru þó rekin sem félagsbú þar sem tveir bændur eru á hverju þeirra. Alls eru hér um 900 mjólkurkýr eða um 32 kýr að jafnaði á hverju búi og eru meðalafurðir nú 8.150 kg mjólkur á árskúna“.
Að sögn Rólvurs eru allir kúabændurnir einnig með sauðfé á búum sínum og telur sá bústofn 100-300 ær. Með þessu móti getur einn bóndi starfað að jafnaði við hvert búanna en oftast vinna makar utan heimilis, auðvitað nokkuð misjafnt þó eftir búum enda er minnsta bú Færeyja með 20 kýr en það stærsta með 120 kýr. „Launagreiðslugeta búanna hefur á liðnum árum verið hægt að tengja aldri rekstrarbygginganna enda nýrri fjósin stærri og veltumeiri en þau eldri. Hinsvegar fylgja oft með nýrri byggingunum meiri skuldir“, sagði Rólvur í viðtali við naut.is og bætti við: „Ef bóndi ætlar að byggja fjós í dag ráðlegg ég að byggja fjós sem hentar fyrir einn mjaltaþjón enda er framleiðsla slíks fjóss það mikil að launagreiðslugetan á að vera í lagi“. Þess má geta að í Færeyjum eru tveir mjaltaþjónar í einu fjósi en fleiri kúabændur eru að horfa til mjaltaþjónavæðingar.
Aðspurður um afurðastöðvamál sagði Rólvur: „Það er ein afurðastöð sem tekur við allri mjólk hér í Færeyjum og fer mjólkin öll til sölu á heimamarkaði. Kúabændurnir ná að sjá um framleiðslu allrar neyslumjólkur, rjóma, jógúrts og allra súrmjólkurvara auk smjörs en hér er enginn ostur framleiddur. Hann kemur að lang stærstum hluta frá Danmörku“, sagði Rólvur að lokum í viðtali við naut.is.
Almennt um Færeyjar
Færeyjar eru eyjaklasi milli Íslands og Shetlandseyja og þýðir nafn eyjanna fjáreyjar og þær því kenndar við sauðfé. Alls eru 18 stærri eyjar í Færeyjum, þar sem 17 í byggð, en auk þess eru margar smáeyjar og sker. Heildarlengd landsins eru 113 km og heildarbreidd 75 km og heildarflatarmál 1.399 km². Stærstar eru Straumey, Austurey, Vogar, Suðurey, Sandey, Borðey og Svíney.
Færeyjar byggðust á svipuðum tíma og Ísland og með sama hætti, þar eð norskir víkingar og sæfarar settust þar að, auk fólks frá Skotlandi og Írlandi, sem margt var af norrænum stofni. Fyrsti landnámsmaður Færeyja var Grímur Kamban.
Höfuðborgin er Þórshöfn á Straumey. Íbúafjöldinn 1. febrúar 2010 var 48.642, þar af u.þ.b. 19.900 í Þórshöfn.
Mikilvægasta atvinnugreinin eru fiskveiðar og fiskvinnsla, en 97% útflutningstekna landsins koma úr þeim atvinnugeira. Næst veigamesta atvinnugreinin er svo ferðaþjónusta/SS.