Beint í efni

Tuttugu ESB-ríki eru með hærra hlutfall neysluútgjalda til matvæla en Ísland

18.04.2013

Hlutfall útgjalda til matvörukaupa samkvæmt nýjustu tölum Eurostat á árinu 2013 sýna að Íslendingar verja 13% heildarútgjalda sinna til kaupa á matvörum en meðaltal ESB-ríkja er 14%. Tölur Eurostat sýna hlutfall matvælakostnaðar í neyslu íbúa í 32 löndum í Evrópu. Evrusvæðið í heild er með hærra hlutfall en Ísland sem er í 24. sæti á listanum, í flokki með Kýpur og Hollandi. Þessar tölur stangast mjög á fullyrðingar Samtaka verslunar og þjónustu í fjölmiðlum að undanförnu um hlutfallslega hátt matvælaverð á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd.

Í tölum Eurostat, sem miða við almenna neyslu fyrir utan húsnæðiskostnað, kemur fram að bæði ESB og Evrusvæðið er hærra en Ísland og Evrusvæðið er út af fyrir sig ekki lægra en ESB í heild. Íslendingar verja lægri hluta útgjalda sinna til matvælakaupa en Finnland, Svíþjóð og Noregur.

Varðandi þau átta lönd sem eru með lægra hlutfall en Ísland má telja augljóst að Lúxemborg, sem er neðst á listanum sé án efa að njóta kosta sinna sem smáríkis í faðmi öflugra nágrannaríkja. Hvað Bretland varðar má t.d. geta þess að enginn virðisaukaskattur er þar á nauðsynjavörur svo sem matvæli og staða pundsins gagnvart evru kann líka að hafa töluverð áhrif á góða stöðu Breta á listanum.

Þess má geta að útgjöld neytenda til kaupa á íslenskum búvörum, án grænmetis, eru um 5,4% heildarútgjalda. Allt grænmeti, bæði innflutt og innlent er 0,8% af heildarútgjöldum.

Heimild: Eurostat, 2013. Sjá hér.