
Tryggja þurfi fæðuöryggið í Svíþjóð
27.01.2018
Í nýlegri skýrslu, sem sagt er frá í frétt frá Jordbruksverket og fjallar um framtíðar öryggismál sænsku þjóðarinnar, kemur fram að hlúa þarf mun betur að fæðuöryggismálum þjóðarinnar og að tryggja þurfi að á hverjum tíma þurfi að vera hægt að fæða þjóðina í amk. þrjá mánuði ef til slíks ástands kæmi að ekki yrði hægt að flytja vörur inn í landið. Í skýrslunni kemur m.a. fram að landið er í dag afar háð innflutningi matvæla, sem sé ekki góð lausn sé litið til framtíðar og að það þurfi að auka innlenda framleiðslu með fæðuöryggi þjóðarinnar í huga.
Í skýrslunni er nánar farið út í ýmis atriði sem lúta að fæðuörygginu og t.d. sett fram tillaga um það hvernig hægt sé að tryggja að næg matvæli séu til á hverjum tíma í landinu, á mismunandi stöðum frá suðri til norðurs. Þessa stöðu megi í raun tryggja nú þegar á hverjum tíma með núverandi kerfi, en ætli landið sér að geta staðið af sér lengri óvissutíma en þrjá mánuði þurfi að auka innlenda landbúnaðarframleiðslu frá því sem nú er. Í skýrslunni er bent á það að í Finnlandi sé nú þegar til afar gott kerfi þegar horft er til fæðuöryggis finnsku þjóðarinnar og benda skýrsluhöfundar á að í raun megi nota finnska kerfið sem grunn að því sænska.
Áætlaður kostnaður, ef ákveðið verður að hlúa að fæðuöryggi sænsku þjóðarinnar, er talinn nema 700 milljónum sænskra króna á ári eða um 9 milljörðum íslenskra króna. Þennan kostnað ber hið opinbera að greiða segir m.a. í frétt Landbruksverket um þessa áhugaverðu skýrslu/SS.