Tryggið vatnið fyrir kýrnar á beitinni
14.06.2010
Nú, þegar margir kúabændur eru farnir að beita kúnum, er afar mikilvægt að huga að drykkjarvatnsmálum. Vatnsþörf kúa er mjög mismikil, eftir nyt og útihitastigi. Almennt má gera ráð fyrir því að kýr í 20 kílóa nyt þurfi um 70 lítra á dag þegar hitastigið er um 5°C. Hinsvegar eykst vatnsþörf þeirra þegar
hlýnar í veðri. Við 20°C þarf sama kýrin um 80 lítra vatns á dag. Sé dagsnytin 40 kíló, er vatnsþörfin samsvarandi um 110 lítrum á dag við 20°C útihita.
Oft er það svo að kúm er ætlað að drekka nægjanlegt vatn í næsta læk. Ef svo er, þarf að huga sérstaklega að þeim stað sem kýrnar eiga að drekka. Til þess að minnka líkur á óhreinindum á júgri og fótum er afar mikilvægt að hafa viðkomandi drykkjarsvæði malarborið. Það minnkar einnig líkurnar á því að vatnið sem kýrnar drekka verði óhreint.
Annað atriði er vert er að hafa hugfast er að kýr framleiða fyrst og fremst mjólk liggjandi. Því er um að gera að reyna að búa svo um aðstæður þeirra utandyra að þær eigi ávalt mjög stutt í næsta vatn af beitinni. Einnig hefur komið fram að kýr sem eiga langt í vatn drekka minna en kýr sem hafa vatnið nálægt sér. Þetta skilar sér eðlilega beint í nytina.
Best er að hafa ávalt nálægt kúnum góðan drykkjarstað s.s. drykkjarker, t.d. tengt við sírennsli og/eða búið flotholtsventli. Þannig má tryggja kúnum öruggt og gott vatn stutt frá þeim, þó svo að beitarsvæðinu sé breytt og girðingar færðar til.
Afar auðvelt er að tengja t.d. garðslöngu með hraðtengi við svona ker og er það mjög handhæg lausn. Þá má einfaldlega leggja plaströr að kerjunum s.s. 20 mm snjóbræðslurör. Slík rör fást í næstu byggingavöruverslun og kostar lengdarmeterinn vel undir 100 krónum. Þá fást umrædd vatnsker t.d. hjá Ölgerðinni í tveimur stærðum (plastker með járngrind undan bragðefnum) og eru afar ódýr. Munið að slöngur og rör þarf að taka í hús að vetri því annars frostspringur kerfið.
Rétt er að minna einnig á mikilvægi þess að gefa nýbærum mikið og gott vatn. Þegar mjólkurframleiðslan hefst snareykst vatnsþörfin hratt. Álaga á kýrnar við burðinn sjálfan er einnig mikið og gott ráð er að gefa kúm vatn úr fötu strax eftir burðinn. Þetta hjálpar kúnum að ná sér betur af stað, sérstaklega eftir erfiðan burð.
Heimildir:
Vand er det vigtigests foderemne for nykælveren e. Finn Strudsholm og Hanne Bang Bligaard hjá AgroTech