Beint í efni

Tröð afurðahæsta búið líkt og í ágúst

18.10.2010

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir september eru nú komnar út hjá BÍ. Alls komu 610 bú til uppgjörs og eru það hlufallsleg skil upp á 95% en í september árið 2009 komu til uppgjörs 96% skýrsluhaldsbúanna. Alls eru skýrslufærðar 22.830,7 árskýr, sem er fjölgun um 357 árskýr frá fyrra mánuði og hefur árskúm nú fjölgað um rúmlega 500 á tveimur mánuðum. Nokkurt jafnvægi virðist komið á þróun meðalafurða en þó fellur meðaltalið heldur mikið á milli mánaða eða um 12 kg, en en sl. 12 mánuði mældist meðalnytin 5.322 kg/árskú en var 5.334 kg mánuðinn á undan. Samtals reiknast nú
 

18 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er óbreyttur fjöldi frá því í ágúst.
 
– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru á bænum Tröð en þar er meðalnytin 7.943 kg og árskúafjöldinn 24,3. Athygli vekur að meðalnytin hækkar um 95 kg á milli mánaða, en Tröð var einnig afurðahæsta búið í ágúst.
 
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru í Reykjahlíð, líkt og í ágúst, en þar er meðalnytin 7.533 kg/árskúna og lækkar meðalnytin heldur frá því í ágúst (um 28 kg) en árskúafjöldinn er sá sami eða 56,8.
 
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru í Gunnbjarnarholti, líkt og í ágúst, en þar er meðalnytin 7.533 kg/árskúna og eru afurðirnar að aukast um 25 kg/árskúna frá fyrri mánuði. Árskúafjöldinn er nú 110,2.
 
Afurðahæsta kýr landsins er sem fyrr Örk Almarsdóttir frá bænum Egg, en sl. 12 mánuði mjólkaði hún 12.929 kg og hafa meðalafurðir hennar nú fallið um 2.780 kg síðustu tvo mánuði. Önnur afurðahæsta kýr landsins er enn Þura Draumsdóttir frá Gunnbjarnarholti með 12.180 kg sl. 12 mánuði og lækkar hún töluvert frá 12 mánaða mælingunni í ágúst eða um 456 kg og virðist hún því hafa náð sínum mestu afurðum í bili.
 
Fram kemur í yfirliti BÍ að 2 kýr á landinu mjólkuðu meira en 12 þúsund kg sl. 12 mánuði (Örk og Þura) og 4 á bilinu 11-12 þúsund kg og 43 kýr á bilinu 10-11 þúsund kg.
 
Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.