Beint í efni

Trigon í Eistlandi stefnir á útflutning

02.01.2018

Mjólkurframleiðslan í Eistlandi hefur ekki verið mjög öflug undanfarna áratugi en nú gæti sú staða verið að breytast. Þar í landi er ekki óalgengt að hlutafélög eigi kúabú og eitt þeirra, Trigon Dairy Farming Estonia, á þrjú all stór kúabú. Eitt þeirra keypti fyrirtækið árið 2012 og var þá í afar lélegu ástandi  en um gamalt samyrkjubú frá tímum Sovétríkjanna var að ræða. Nú einungis fimm árum síðar er staðan á búinu allt önnur. Kúafjöldinn er kominn í 2.200, meðalnytin er 11.300 og nemur framleiðslukostnaður mjólkurinnar á búinu 24,6 krónur/kg (20 evrusent) en búið nýtur einnig opinberra styrkja frá bæði Evrópusambandinu og Eistlandi og fær umreiknaðan styrk á mjólkurframleiðsluna sem nemur 6,15 krónum (5 evrusentum) á hvert framleitt kíló.

Góður rekstur þessa bús og hinna tveggja sem Trigon á og rekur, sem og mikið magn mjólkur, hefur nú leitt til þess að nú er horft til þess að auka verðmæti mjólkurinnar með því búið flytji sjálft mjólkina beint á markaði erlendis. Nærtækast er að horfa til útflutnings til nágrannalandanna Finnlands og Svíþjóðar enda stutt að fara. Þar er einnig töluvert hærri framleiðslukostnaður mjólkur svo líklega getur Trigon komið inn á markaðinn með ódýrari mjólkurvörur þrátt fyrir flutningskostnaðinn.

Þess má geta að í Eistlandi hefur orðið afar hröð breyting á kúabúskap frá árinu 2000. Þá var meðalbúið þar í landi með 32 kýr en nú er meðalbúið með 136 kýr. Árleg framleiðsla mjólkur er nú um 714 milljónir lítra og fer tæplega helmingur til útflutnings/SS.