Beint í efni

Tölvan pantar frjótækninn!

18.09.2012

Þetta kann að hljóma eins og úr vísindaskáldsögu en tilfellið er að búnaðurinn Heatime, sem margir kúabændur á hinum Norðurlöndunum nota til beiðslisgreininga, mun nú á  næstunni ráða við að panta frjótækni án þess að bóndinn þurfi að gera nokkuð. Kerfið greinir mjög nákvæmlega beiðsli og með því að bera upplýsingarnar saman við ýmsar skýrsluhaldsupplýsingar getur hugbúnaðurinn reiknað út hvort sæða eigi viðkomandi grip eða ekki. Eigi að sæða, sendir hann einfaldlega pöntun inn til næsta frjótæknis!

 

Enn sem komið er hafa forsvarsmenn Heatime ekki gefið upp nánari upplýsingar, en afar áhugavert verður að heyra af því hvernig og hvort þetta kerfi virkar jafn vel og látið er uppi. Eins og áður segir verður hulunni af þessum búnaði svift á næstu Agromek sýningu sem haldin verður í nóvember næstkomandi/SS.