
Tölur um búfjárfjölda 2016 komnar út
22.05.2017
Matvælastofnun hefur lokið gagnasöfnun og birt hagtölur í landbúnaði um búfjárfjölda fyrir árið 2016 á vef sínum mast.is. Um beina gagnasöfnun er að ræða þar sem búfjáreigendur/umráðamenn búfjár skrá upplýsingar um fjölda búfjár, forða og landstærðir í gagnagrunn Matvælastofnunar, Bústofn.
Sagt er frá því á vef Matvælastofnunar að á árinu 2016 hafi verið unnið að því að gera skráningar búfjár skilvirkari, þar sem búfjáreigendur/umráðamenn í sauðfjárrækt, hrossarækt og nautgriparækt gátu til viðmiðunar séð upplýsingar úr skýrsluhaldskerfum við útfyllingu á haustskýrslum. Þá var skráningakerfi alifugla endurskoðað til að bæta hagtölusöfnun. Unnið er að því að bæta skráningar á hrossum og stefnt er að því að í haust verði hægt að skrá haustskýrslu samhliða skráningu í WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins.
Að sögn Mast voru rafræn skil bænda betri en undanfarin ár og var heildarfjöldi skilaðra skýrslna 4.901 talsins. Nautgripum og sauðfé fjölgaði frá fyrra ári. Nautgripum fjölgaði úr 78.776 í 80.024 og sauðfé úr 473.553 í 475.893 á milli ára. Geitum fjölgaði úr 1.011 í 1.188 á milli ára en í fyrra hófst skipulagt skýrsluhald í geitfjárrækt.
Hagtölurnar eru aðgengilegar á mælaborði Matvælastofnunar.
/vefur Matvælastofnunar greindi frá.