
Tölum af ábyrgð um baráttuna við riðuna
25.09.2021
Þann 10. september barst tilkynning frá MAST um að riða hefði verið staðfest á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði sem er í Húna- og Skagahólfi. Framundan er niðurskurður á öllu sauðfé á búinu, hreinsunarstarf og fjárleysi í 2 ár. Riða er alavarlegur sjúkdómur sem veldur miklu tjóni. Mikilvægt er að leita allra leiða til að hefta útbreiðslu hennar og eru bændur hvattir til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verjast riðusmiti. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir gripum sem sýna einkenni riðuveiki og tilkynna héraðsdýralækni um minnsta grun.
Í Bændablaðinu sem kom út 23. september er grein eftir Halldór Runólfsson, fyrrverandi yfirdýralækni og skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í greininni leggur Halldór til að niðurskurð á öllum bæjum sem verið hafa með fé í Húna- og Skagahólfi. Öll umræða um niðurskurð er á þessu stigi ótímabær og til þess fallinn að valda mikilli óvissu og tortryggni. Hér eru miklir hagsmunir í húfi enda er um 60.000 vetrarfóðraðar kindur á þessu svæði. Leggja þarf megináherslu á að kortleggja útbreiðslu riðu á svæðinu og í framhaldi af því ræða frekari viðbrögð.
Efla þarf erfðafræðilegar rannsóknir á sauðfé með það að markmið að rækta upp stofn með verndandi arfgerð gegn riðusmiti. Nú þegar eru komin í gang verkefni sem miða að þessu og hafa þau verið styrkt af fagfé sauðfjárræktarinnar.
Sú staða sem nú er uppi gefur fullt tilefni til þess að endurskoða, hið fyrsta, ákvörðun MAST frá árinu 2018 um að fella niður Blöndulínu milli Skagahólfs og Húnahólfs.
Ólafur Benediktsson, formaður félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu
Birgir Þór Haraldsson, formaður félags sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu
Einar Kári Magnússon, formaður félags sauðfjárbænda í Skagafirði
Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður búgreinadeildar sauðfjárbænda BÍ
Vigdís Hässler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands