Beint í efni

Tollar og innlend matvælaframleiðsla

21.03.2013

Í fyrrasumar gáfu Bændasamtökin út fræðslubækling um tolla og íslenskan landbúnað. Markmiðið með útgáfunni var að fara með skipulögðum hætti yfir tollaumhverfi íslensks landbúnaðar og landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Tollamálin eru sífellt á dagskrá, en fyrir nokkru boðuðu Samtök verslunar og þjónustu tillögur sem miða að auknum innflutningi á búvörum. Bændasamtökin hafa um árabil bent á að Ísland er ekki frábrugðið öðrum þjóðum sem slá skjaldborg um innlenda búvöruframleiðslu með tollvernd. Rökin eru einkum þau að hagsmunir neytenda séu ekki fólgnir í því að veikja innlenda matvælaframleiðslu með auknum innflutningi á mat sem hægt er að framleiða á Íslandi. Það kosti mikinn gjaldeyri og veikir atvinnulíf, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Í fræðslubæklingnum er dregin
upp mynd af alþjóðasamningum um viðskipti með landbúnaðarvörur, svo sem við Evrópusambandið og
Alþjóðaviðskiptastofnunina. Sýnt er fram á samhengi launa og verðlags 20 landa og sýndur samanburður á útgjöldum til matvörukaupa milli nokkurra Evrópulanda. Einnig er þeirri spurningu velt upp hvað myndi gerast hérlendis ef tollar væru afnumdir og bent á mikilvægi hugtakanna fæðu- og matvælaöryggis í því sambandi að vernda innlenda matvælaframleiðslu. Bæklingurinn er fáanlegur hjá
Bændasamtökunum og á vefsíðu samtakanna á bondi.is


Nokkrar staðreyndir um íslenskan landbúnað og tolla;

» Stjórnvöld leggja tolla á innfluttar búvörur sem eru sambærilegar þeim sem framleiddar eru hér á landi. Einkum er um að ræða mjólkurvörur, kjötvörur og blóm. Einnig nýtur útiræktað grænmeti eins og gulrætur, gulrófur og kartöflur tollverndar þegar íslenska framleiðslan annar eftir spurn. Þegar íslenskar vörur eru ekki til eru erlendu vörurnar fluttar
til landsins án tolla. Einnig er lagður magntollur á sveppi en gúrkur, tómatar, salöt og paprikur, sem flutt eru inn allt árið, eru án tolla.
» Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði.
» Reynsla annarra þjóða af því að opna fyrir innflutning og á sama tíma að draga úr hvatningu til innlendra framleiðenda er að slíkt hefur leitt til mikilla verðhækkana á mat.
» Langflestar landbúnaðarvörur eru fluttar inn án tolla. Þetta á til dæmis við um allt hveiti og kornvörur, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávexti og grænmeti.