Beint í efni

Tíu ár frá ferð LK til Nýja-Sjálands

15.02.2015

Í dag, 15. febrúar, eru liðin tíu ár frá því að fimmtíu manna hópur bænda, ráðunauta og annars áhugafólks um landbúnað hélt í kynnisferð til Nýja-Sjálands, á vegum Landssambands kúabænda. Það var á stjórnarfundi LK sem haldinn var í maí 2004, sem þáverandi varaformaður samtakanna, Sigurður Loftsson, reifaði hugmynd að slíkri ferð og var Snorra Sigurðssyni, þáverandi framkvæmdastjóra falið að skipuleggja hana. Hann var jafnframt fararstjóri og fórst það vel úr hendi. Mikill áhugi var á ferðinni og skráðu um 60 manns sig í hana. Leiðsögumaður var Valdimar Einarsson frá Lambeyrum í Dölum sem búsettur hefur verið á Nýja-Sjálandi síðan snemma á 9. áratugnum.

 

Lagt var af stað miðvikudaginn 15. febrúar 2005, eins og áður segir. Flogið var til London og þaðan áfram til Hong Kong, þar sem áð var eina nótt. Þaðan var flogið til Auckland, stærstu borgar Nýja-Sjálands. Flugtíminn þaðan frá Íslandi var alls 24 klst. Eins og sjá má myndinni hér að neðan lá leiðin þaðan suður eftir Norðureyjunni með viðkomu á landbúnaðarsýningu, kúabúum, mjólkursamlagi (sem vann úr 4 milljörðum lítra á ári!), sauðfjársláturhúsi, hellum sem siglt var eftir, í kvenfélagskaffi í félagsheimili, fjárbúi og dádýrabúi, uns komið var til höfuðborgarinnar Wellington, sem er syðst á Norðureyjunni. 

 

Kort af Nýja-Sjálandi, leiðin um landið er dregin upp.

 

Þaðan var siglt með ferju yfir á Suðureyjuna og lagt að í einstaklega fallegum bæ sem Picton heitir. Þaðan var haldið sem leið lá syðst á Suðureyjuna og komið við á vínbúgarði, sellátrum, gripamarkaði,  kúa- og fjárbúum og Milford Sound, sem er hluti af Fiordland þjóðgarðinum. Einn af hápunktum ferðarinnar var dvölin i Queenstown, þar sem farið var í hraðbátaferð eftir Dart ánni og teygjustökk af Kawaro brúnni. Þaðan vr síðan aftur haldið til Christchurch sem er um miðbik Suðureyjunnar, flogið þaðan til Auckland og svo áfram heim til Íslands, með viðkomu í Hong Kong. Lent var í Keflavík miðvikudaginn 2. mars.

 

Einn af ferðafélögunum, Sigurður Þórðarson, verkfræðingur í Garðabæ, skráði ítarlega og myndskreytta ferðasögu eftir dagbók sinni í ferðinni. Ferðasöguna má nálgast með því að smella hér.

 

Ferðalangar voru flestir á einu máli um að ferð þessi hafi verið einstök upplifun; við náðum að skoða mikinn hluta landsins og fara í mjög fjölbreyttar heimsóknir undir framúrskarandi leiðsögn Valdimars, sem gjörþekkir land og þjóð eftir áralanga búsetu. Þá var hópurinn mjög skemmtilegur.

 

Það er mjög margt sem situr enn í huganum, tíu árum síðar. Stórbrotin náttúrufegurð landsins og einstakar aðstæður til landbúnaðar ber hvað hæst. Einnig var afar lærdómsríkt að kynnast viðhorfum þarlendra bænda; afkoman var drifin áfram af framleiðslunni, ekki stjórnvaldsákvörðunum og áherslan á að lágmarka kostnað búvöruframleiðslunnar var allt um lykjandi. Það hafði djúpstæð áhrif á marga og hefur mótað sýn þeirra æ síðan. 

 

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessu landi og hvet alla þá sem fá til þess möguleika, að láta þá ekki úr greipum renna./BHB