Beint í efni

TINE þróar nýja gerð drykkjarmjólkur

02.08.2013

Norska afurðafélagið TINE hefur nú þróað nýja gerð mjólkur sem hefur fengið nafnið Styrk en eins og nafnið gefur til kynna er hér um að ræða styrkjandi mjólk, sem minnir um margt á Fjörmjólkina sem seld er hér á landi. Styrk er fitusnauð en með 50% meira próteini en hefðbundin mjólk. Þá er hún með hærra hlutfall af kalki auk þess sem hún er D-vítamín bætt. Þessi nýja mjólkurgerð er einnig með lægra innihald af mjólkursykri en að sögn TINE bragðast hún þó eins og hefðbundin mjólk.

 

Til þess að búa til einn líter af Styrk þarf 4,5 lítra af hefðbundinni mjólk en hin nýja mjólkurgerð er búin til með síun hefðbundinnar mjólkur þar sem fita, vatn, mjólkursykur og salt er síað frá. Markaðssetning mjólkurinnar miðar að því að fá neytendur til þess að neyta aukins hlutfalls næringarefna mjólkurinnar þó mjólkurglösin séu færri.

 

Norðmenn eru auðvitað engum öðrum líkir og hafa því gert skemmtilega auglýsingu um breytta neysluhegðun sem hefur svo leitt til framleiðslu á Styrk. Auglýsinguna má sjá á Youtube með því að smella hér/SS.