Beint í efni

TINE tekur Jæren í notkun

14.06.2012

Eftir nokkurn drátt hefur nú TINE í Noregi loks opnað hina nýju og glæsilegu afurðastöð sína í Jæren nærri Stavanger, en upphaflega stóð til að taka afurðastöðina í notkun síðasta haust. Afurðastöðin er gríðarlega stór, 37 þúsund fermetrar (3,7 hektarar) og kostaði einnig sitt: 34 milljarða íslenskra króna.

 

Afurðastöðin mun taka á móti 200 milljón lítrum mjólkur árlega en hefur þó móttökugetu upp á 1 milljón lítra á dag ef þörf krefur. Í Jæren verður aðallega framleiðsla á hinum þekkta osti Jarlsberg, en auk þess smjör, mjólkurduft og fleiri afurðir.

 

Í Jæren afurðastöðinni er horft til framtíðar en öll umframorka fer beint til næsta nágranna Tine, sem er gróðrarstöðin Miljøgartneriet. Þar hafa verið byggð stór gróðurhús sem umframorka afurðastöðvarinnar sér um að hita upp. Á móti kemur svo að Tine fær til baka niðurkælt vatn frá gróðararstöðinni/SS.