Beint í efni

TINE og Arla með uppgjör síðasta árs

07.03.2018

Nú hafa bæði afurðafélögin TINE í Noregi og Arla í Norður-Evrópu upplýst um gengi þeirra á síðasta ári og var nokkur munur á rekstrarniðurstöðum ársins hjá þessum tveimur samvinnufélögum kúabænda.

TINE seldi mjólkurvörur í fyrra fyrir 282 milljarða íslenskra króna sem er örlítil aukning frá árinu 2016 eða 0,2%. Líkt og flest samvinnufélög í mjólkuriðnaði var TINE rekið með hagnaði og nam hann 19,6 milljörðum króna, sem er þó 2,3 milljarða króna minni hagnaður en árið 2016. Í tilkynningu TINE segir að félagið sé ekki sátt við ársniðurstöðuna og að breyta þurfi áherslum innanhúss m.a. sé það of svifaseint til að bregðast við breyttum áherslum neytenda, nokkuð sem geti gerst á afar stuttum tíma segir í tilkynningunni. Þar segir ennfremur að félagið ætli að spara í rekstri þess um 7,5 milljarða íslenskra króna á þessu ári í þeim tilgangi að gera félagið betur samkeppnishæft á markaði.

Rekstur Arla gekk vel á síðasta ári og var heildarvelta þess 1.275 milljarðar íslenskra króna og var hagnaðurinn 36 milljarðar króna, sem er hlutfallslega mun minni hagnaður en hjá TINE. Rekstur Arla er reyndar stilltur af, af eigendum þess, svo hagnaðurinn er settur jafnt og þétt út í afurðastöðvaverðið á rekstrarárinu. Félagið hefur aldrei áður verið með viðlíka veltu og hún var árið 2017 og segir í tilkynningu félagsins að rekstrarniðurstaðan sé afar góð og geri það að verkum að félagið geti farið út í mestu fjárfestingar í sögu þess nú á þessu og komandi árum en naut.is hefur áður greint frá þeim áformum félagsins. Félaginu gekk sérlega vel í fyrra að selja skyr í Evrópu og er það sú vara sem skilaði mestri söluaukningu á liðnu ári hjá Arla/SS.