
TINE með vetnisdrifna flutningabíla
13.09.2016
Stjórn norska afurðafélagsins TINE hefur ákveðið að skipta út flutningabílum sínum á komandi árum og taka í notkun tegundina Nikola One, en um er að ræða vetnisbíl. Þessi bíll er reyndar ekki kominn á markað enn, en fyrstu trukkarnir af þessari gerð rúlla af stað í Bandaríkjunum í lok þessa árs. En það er meira en vetnið sem gerir Nikola One einstakan, hann er ekki hægt að kaupa heldur er eingöngu hægt að leigja! Leiguverðið er á bilinu 570-800 þúsund krónur á mánuði og er þá allt innifalið, ótakmarkaður akstur, allt viðhald og meira að segja vetnið á bílinn!
Markmið TINE er að draga úr kolefnisfótspori fyrirtækisins um 75% fyrir árið 2020 og hentar því þessi gerð bíls einstaklega vel enda vegur mengun frá bílaflota TINE þyngst í því reikningsdæmi/SS.