Beint í efni

TINE þarf að hagræða

09.09.2017

Nú liggur fyrir uppgjör fyrstu tveggja ársfjórðunga ársins hjá norska afurðafélaginu TINE, en það er sem kunnugt stærsta samvinnufélag kúabænda í Noregi. Félagið velti alls 5,51 milljörðum norskra króna fyrstu sex mánuði ársins eða sem nemur um 75 milljörðum íslenskra króna og nam hagnaður félagsins alls 452 norskum milljónum eða sem svarar til 6,2 milljörðum íslenskra króna. Þó svo að þetta séu nú myndarlegar tölur og afar hátt hagnaðarhlutfall af veltu, þá er stjórn félagsins hreint ekki sátt við árangurinn enda eru tekjur félagsins 1,1% minni en fyrstu sex mánuði ársins 2016 og það telur stjórnin óásættanlegt. Skýringin á þessari veltulækkun TINE felst fyrst og fremst í tapi félagsins á heimamarkaðinum, en félaginu hefur gengið erfiðlega að halda markaði í samkeppni við innfluttar mjólkurvörur.

Snemma á árinu lá fyrir að TINE var að tapa markaðshlutdeild og var þá þegar ráðist í aðgerðir til þess að bregast við þeirri stöðu og náðist t.d. að hagræða í rekstri félagsins um 35 norskar milljónir (477 milljónir íslenskra króna) nú í sumar í samanburði við síðasta sumar. Þessar aðgerðir eru þó ekki nógu mikið skref og hefur stjórnin nú fyrirskipað öllum deildum félagsins að hagræða og koma með tillögur til lausnar á þessum vanda TINE nú í september. Það er því óvissutími framundan hjá starfsfólki TINE, enda nokkuð ljóst að hagræðingaraðgerðir félagsins munu snerta fjölda starfsmanna/SS.