Beint í efni

TINE hauggasvæðir bílaflotann

21.11.2017

Norska samvinnufélagið TINE hefur nú hleypt af stokkunum metnaðarfullu verkefni sem þeir kalla KUKRAFT sem snara mætti yfir á íslensku sem kúakraftur. Þetta verkefni snýr að því að hauggasvæða bíla félagsins og kemur gasið frá kúabúum sem leggja inn mjólk hjá TINE. Með þessu verkefni hefur TINE tekið afgerandi forystu í þessum málaflokki meðal afurðastöðva heimsins en flestar hafa það að markmiði að draga verulega úr kolefnisfótspori sínu.

Í fyrstu er um tilraunaverkefni að ræða en markmiðið er að árið 2022 muni amk. 100 bílar frá TINE aka um á hauggasi og mun þessi aðgerð bæði gagnast félaginu vegna jákvæðra umhverfisáhrifa en einnig kúabændunum þar sem þeir verða um leið orkuframleiðendur og fá því bæði greitt fyrir mjólk og gas frá TINE. Þess má geta að gasframleiðslan byggir ekki eingöngu á kúamykju heldur einnig matarafgöngum enda eykst gasframleiðslan um 25% við að bæta mykjunni út í matarafgangana sem er algengasta aðferðin við hauggasframleiðslu.

Í fréttatilkynningu TINE segir m.a. að mykja frá einni kú gefur af sér, eftir blöndun við matarafganga, það mikið gas að einn smábíll getur ekið á því 25 þúsund kílómetra. Þá sparast um leið 4,3 tonn af koltvísýringi við að aka á hauggasi umfram hefðbundnu jarðefnaeldsneyti/SS.