Beint í efni

TINE dregur úr sykurnotkun

03.11.2016

Norska afurðafélagið TINE hefur á undanförnum 10 árum dregið verulega úr sykurnotkun við framleiðslu sína og hefur félagið nú tilkynnt að samtals nemur minnkunin einni milljón kílóum á ári miðað við samanburðarárið 2006. Þetta er er í takt við stefnu félagsins um að markvisst gera vörur þess enn betri.

 

Þær vörur sem hafa staðið að mestu undir þessum miklu breytingum á innihaldi er bragðbætt jógúrt, ískaffi og íste, bragðbættar sýrðar vörur og mjólkurdrykkir TINIE. Í tilkynningu félagsins segir að þessi árangur hafi náðst með mörgum litlum skrefum og þannig hafi t.d. þekkt jógúrt fyrir börn sem kallast Sprett innihaldið 60% meiri sykur árið 2001 en hún gerir í dag. Jafnt og þétt var dregið úr sykurmagninu og telja næringarfræðingar TINE það lykilinn að þessum mikla árangri í minni sykurnotkun. Þetta er þó ekki einföld aðgerð enda gerir sykur meira og annað en að vera sætuefni, sykur hefur áhrif á áferð mjólkurvörunnar og dregur fram aukin bragðáhrif ávaxta. Þess vegna eru hin litlu skref mikilvæg, enda hafa þá sérfræðingar félagsins getað fundið aðrar leiðir til þess að bæta úr því sem vantar í viðkomandi vöru þegar dregið er úr sykrinum/SS.