Beint í efni

Tine byrjar fljótlega í Jæren

08.09.2011

Tine, hið norska framleiðendasamvinnufélag þarlendra kúabænda, tekur fljótlega í notkun nýju afurðastöðina í Jæren nærri Stavanger sem áður hefur verið fjallað um hér á naut.is. Um leið verður fjórum öðrum minni afurðastöðvum lokað en þær eru í dag í Voll, Kleppe, Nærbo og Vikeså.

 

Hin nýja afurðastöð verður einkar glæsileg og er engin smásmíði. Húsnæðið þekur alls 25 þúsund fermetra og ætlaður kostnaður við framkvæmdina eru 1,4 milljarðar norskra króna eða um 30 milljarðar íslenskra króna. Nýja afurðastöðin í Jæren mun í fyrstu taka á móti 200 milljón lítrum árlega, en hefur þó móttökugetu upp á 1 milljón lítra á dag ef þörf krefur. Aðal framleiðsla þessarar nýju afurðastöðvar verður ostur og smjör.

 

Um Tine
Hjá Tine vinna 5.700 manns og var velta félagsins á síðasta ári 18,9 milljarðar norskra króna eða um 403 milljarðar íslenskra króna! Árlega tekur félagið við um 1,4 milljörðum lítrum mjólkur frá 15 þúsund félagsmönnum en heildarframleiðsla mjólkur í Noregi er 1,51 milljarðar lítra svo auðséð er að Tine er lang stærsta félagið sem vinnur úr mjólk í Noregi. Eins og er vinnur Tine úr mjólk í 44 afurðastöðvum/SS.