TINE að skoða lokun afurðastöðva
06.05.2016
Eins og við sögðum frá 11. mars sl. þá hafa norskar afurðastöðvar verið að slást um réttinn til þess að selja ostinn Jarslberg á erlendri grundu eins og lesa má um hér. Ofan í þau slagsmál kemur sú staðreynd að norska stórþingið hefur ákveðið að fella niður norskar útflutningsbætur á osta frá og með árinu 2020 og þýðir það að norskir ostar þurfa að keppa án niðurgreiðslna og metur stjórn TINE það svo að það verði harla erfitt enda framleiðslukostnaður mjólkur hár í Noregi miðað við í mörgum helstu samkeppnislöndunum.
Stjórn TINE hefur látið fara fram umfangsmikla rannsókn á ostamarkaðinum og er það mat stjórnarinnar að draga þurfi úr umsvifum á útflutningsmarkaði og hlúa fyrst og fremst að norska markaðinum. Alls sé hægt að lækka kostnað við framleiðsluna um 70 norskar milljónir eða um 1 milljarð íslenskra króna ef framleiðslan verði betur aðlöguð að hinum norska markaði. Hefur þá verið gert ráð fyrir því að loka tveimur afurðastöðvum TINE í Noregi og að hagræða enn frekar í rekstri annarra stöðva. Áður hefur komið fram í frétt hér á naut.is að talið sé að brotthvarf útflutningsbóta muni koma hart niður á norskri mjólkurframleiðslu og að jafnvel þurfi að draga saman framleiðsluna sem nemur 10%/SS.