Beint í efni

Tímamótasamningur bænda við Sjóvá

03.04.2023

Undirritaður hefur verið samningur milli Sjóvár og Bændasamtaka Íslands fyrir alla félagsmenn samtakanna frá 18-74 ára aldri. Hóptryggingin greiðir bætur vegna útlagðs kostnaðar vátryggðs félagsmanns við tímabundna afleysingu verði hann ófær til starfa á vátryggingartímanum af völdum slyss eða sjúkdóms.

Skilyrði bótaréttar er að félagsmaður hafi verið óvinnufær að lágmarki 50% í þrjá mánuði samfellt. Engar bætur greiðast þó fyrsta mánuð óvinnufærninnar. Mánaðarleg vátryggingarfjárhæð er 350 þúsund krónur fyrir algera óvinnufærni sem greiðist að hámarki í sex mánuði á bótatímanum.

Bændasamtök Íslands heldur utan um skrá yfir vátryggða félagsmenn og er tengiliður við Sjóvá vegna iðgjalda og gildistöku tryggingarinnar. Hóptryggingarsamningurinn tekur gildi þann 1. apríl næstkomandi. Frekari upplýsingar um hóptrygginguna veitir Vigfús M. Vigfússon, vörustjóri persónutrygginga hjá Sjóvá.

Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár og Heiður Huld Hreiðarsdóttir (á efri mynd), forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar, undirrituðu samninginn við Vigdísi Hӓsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, fyrir hönd félagsins.