Tillögur og ályktanir aðalfundar LK 2008
09.04.2008
Eftirfarandi tillögur og ályktanir voru samþykktar á aðalfundi Landssambands kúabænda sem var haldinn á Selfossi um síðustu helgi:
Tillaga 1.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. Apríl 2008, leggur áherslu á að allar hugmyndir um lækkun á innflutningstollum á matvælum ganga þvert á gefin fyrirheit stjórnvalda undanfarin ár. Þá væru slíkar lækkanir afar illa tímasettar nú þegar hyllir undir samkomulag um nýjan WTO-samning, sem ráða mun þróun heimsviðskipta með búvörur í framtíðinni og þar með um þróun tollverndar landbúnaðarafurða.
Tillaga 2.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, lýsir undrun sinni á aðgerðum Samkeppniseftirlits í kjölfar Búnaðarþings 2008. Bent er á að bændur eiga aðild að Bændasamtökum Íslands og þar með Búnaðarþingi sem einstaklingar.
Tillaga 3.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, beinir því til stjórnar að leita leiða til að kostnaðarbreytingar við mjólkurframleiðslu skili sér fyrr en nú er í afurðaverði. Eins er brýnt að sá viðmiðunargrunnur sem nýttur er við að meta framleiðslukostnað kúabúa, sýni með sem skýrustum hætti afkomu þeirra á hverjum tíma. Jafnframt skoði stjórn LK hvort verðmyndun aðfanga til mjólkurframleiðslu sé eðlileg í samanburði við nágrannalöndin.
Greinargerð:
Verðlagsnefnd búvöru ákveður mjólkurverð til bænda og hefur hún stuðst við verðlagsgrundvöll kúabús til að meta kostnaðarbreytingar í greininni. Margt bendir þó til að grundvöllurinn endurspegli orðið illa þróun ýmissa kostnaðarliða. Því er nauðsynlegt að öll tiltæk verkfæri verði nýtt til að meta raunverulega stöðu greinarinnar og afurðaverð leiðrétt í samræmi við það.
Margt bendir til að hér ríki fákeppni á markaði og virðist sem verð á sumum aðföngum til mjólkurframleiðslu sé óeðlilega hátt í samanburði við verð í nágrannalöndum okkar og heimsmarkaðsverð hráefna.
Tillaga 4.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, felur stjórn að kanna möguleika á því að nýta það svigrúm sem gert er ráð fyrir í búvörulögum og gildandi samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, til að hætta opinberri verðlagningu á mjólk til framleiðenda, þótt opinberri verðlagningu sé haldið áfram á heildsölustigi. Niðurstöður verði lagðar fyrir næsta aðalfund LK til frekari ákvörðunartöku.
Tillaga 5.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, skorar á stjórn LK að skoða hvaða leiðir séu færar til að lækka búnaðargjald á greininni. Niðurstöður verða kynntar á næsta aðalfundi LK.
Tillaga 6.
Aðalfundur LK 2008 samþykkir að tilhögun greiðslu úr lið 6.4 óframleiðslutengds- og/eða minna markaðstruflandi greiðslna í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10.maí 2004 verði ráðstafað á eftirfarandi hátt verðlagsárin 2008/2009 og 2009/2010:
Verðlagsárið 2008/2009 | |
Þróunarfé | 8 milljónir |
Jarðrækt | 30 milljónir |
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi | 25 milljónir |
Eingreiðsla á greiðslumark óháð nýtingu | 34 milljónir |
Alls | 97 milljónir |
Verðlagsárið 2009/2010 | |
Þróunarfé | 8 milljónir |
Jarðrækt | 30 milljónir |
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi | 106 milljónir |
Alls | 144 milljónir |
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi miðaðst meðal annars við að fullnægjandi upplýsingum um afurðir og efnainnihald sé skilað í skýrsluhald nautgriparæktarinnar.
Tillaga 7.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4.-5.apríl 2008 beinir því til Bændasamtaka Íslands að láta haga sundurliðun á fjármagnsliðum í bókhaldsforritinu dk Búbót, þannig að fram komi annars vegar raunverulegur greiddur fjármagnskostnaður, og hins vegar breytingar á höfuðstól skulda vegna gengisbreytinga eða breytinga á vísitölu neysluverðs. Einnig að flýta skattauppfærslu í fyrrnefndu forriti.
Tillaga 8.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4.-5.apríl 2008, ítrekar fyrri ályktanir þess efnis að aflögð verði alveg stimpilgjöld við þinglýsingu. Mikilvægt er að allir lántakendur njóti þess og fundurinn ítrekar að raunveruleg samkeppni milli banka verður aldrei nema að aflögðum þessum gjöldum.
Tillagan verði send til Alþingis.
Tillaga 9.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, felur stjórn að leita samstarfs við Matvælastofnun um útfærslu eftirlitskerfis landbúnaðarins. Haft skal að leiðarljósi að kerfið komi bændum og öðrum að þeim notum sem til er ætlast án þess að útfærsla þess verði verulega íþyngjandi.
Jafnframt láti stjórn LK taka saman hvaða eftirlitsgjöld eru lögð á greinina.
Tillaga 10.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, beinir til stjórnar LK að kanna kosti og galla þess að taka upp notkun örmerkja við einstaklingsmerkingu nautgripa.
Tillaga 11.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008 varar við því að gerðar verði einhverjar þær breytingar á störfum héraðsdýralækna sem ætla má að leiði til lakari dýralæknaþjónustu í strjábýlli héruðum.
Greinargerð:
Víða um land hagar svo til að starfandi héraðsdýralæknar sinna einnig almennum dýralækningum á starfssvæðum sínum og í strjábýlli héruðum er önnur dýralæknisþjónusta ekki fáanleg nema úr mikill fjarlægð og með ærnum tilkostnaði. Verði alger aðskilnaður eftirlits og almennrar dýralæknaþjónustu í samræmi við reglur ESB að veruleika er vandséð að nokkrir dýralæknar muni starfa í fámennustu héruðunum. Því mun fylgja verulegur kostnaður fyrir bændur og jafnframt er sú staða algerlega óásættanleg út frá dýraverndunarsjónarmiðum. Eðlilegt er að vegna strjábýlis fáist hér undanþága frá fyrrnefndum aðskilnaði, líkt og tíðkast í strjálbýlli landshlutum Noregs og Svíþjóðar.