Tillögur og ályktanir aðalfundar LK 2007
17.04.2007
Hér er að finna ályktanir og tillögur sem samþykktar voru á aðalfundi Landssambands kúabænda, sem haldinn var á Hótel KEA á Akureyri þann 13. og 14. apríl s.l. Um afgreiðslu málanna er það að segja að þau voru samþykkt samhljóð, nema þar sem annað er tekið fram. Að venju var fundurinn mjög starfssamur og voru samþykktar nítján tillögur sem er að finna hér að neðan.
Starfsnefnd 1.
Tillaga 1
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 13. -14. apríl 2007 leggur áherslu á að lokið verði sem fyrst vinnu við mat á hagkvæmni þess að framleiða mjólk á Íslandi með nýju kúakyni og þannig myndaður grunnur að frekari ákvarðanatöku í málinu. Við lokavinnslu skýrslunnar verði tekið mið af ábendingum sem fram hafa komið um mat á vinnuþörf og fleiri atriðum.
Fundurinn telur ljóst að notkun nýs kúakyns sé ein vænlegra leiða til að lækka framleiðslukostnað mjólkur. Jafnframt sýna viðhorfskannanir að núverandi kúakyn á mikilvægan þátt í tryggð neytenda við íslenska mjólk. Þessi sjónarmið þarf að virða í framhaldinu.
Með hliðsjón af framansögðu er æskilegt að leyfður verði takmarkaður innflutningur erfðaefnis í tilraunaskyni, þá á vegum sérstaks félagsskapar fremur en Landssambands kúabænda.
Fundurinn áskilur þó að takmarkanir á notkun þessa erfðaefnis og framkvæmd verkefnisins verði unnar í fullu samráði við LK og mjólkuriðnaðinn.
Samþykkt í leynilegri atkvæðagreiðslu með 26 atkvæðum gegn 7.
Tillaga 2.
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 13. -14. apríl 2007 samþykkir að Landssamband kúabænda leiti fjárhagslega og tæknilega forsvaranlegra leiða til að flytja inn erfðaefni úr Aberdeen Angus og Limousine holdakynjunum.
Greinargerð:
Þær birgðir af holdanautasæði úr Limousin og Aberdeen Angus gripum sem til eru í landinu eru úr mjög fáum gripum, einungis 3 nautum af hvoru kyni. Þeir bændur sem eru að rækta holdagripi eru því margir hverjir komnir í veruleg vandræði út af skyldleikarækt. Umfang holdanautaræktar er hins vegar það lítið að innflutningur er erfðaefnis er vart forsvaranlegur nema hægt sé að framkvæma hann á tiltölulega ódýran hátt.
Starfsnefnd 2.
Tillaga 1.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, fagnar því að Landbúnaðarstofnun hyggist birta niðurstöður efnagreininga á heimasíðu sinni. Skorað er á stofnunina að birta nú þegar niðurstöður efnamælinga á áburði og fóðri, vegna mikilvægis þessara upplýsinga fyrir bændur. Einnig telur fundurinn eðlilegt að greina frá afdrifum þeirra aðfanga sem ekki standast kröfur.
Tillaga 2.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, skorar á landbúnaðarráðherra að fella nú þegar niður alla tolla á innfluttar kjarnfóðurblöndur.
Fundurinn minnir á að kjarnfóðurverð hefur áhrif á verðmyndun landbúnaðarvara og þar með matvælaverð.
Tillaga 3.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, skorar á Alþingi að afnema hið fyrsta stimpilgjöld sem lögð eru á veðskuldabréf við þinglýsingu.
Tillaga 4.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, beinir því til stjórnar Landsambands kúabænda að láta gera úttekt á þróun raforkukostnaðar hjá mjólkurframleiðendum síðustu árin.
Tillaga 5.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, skorar á stjórn Landssambands kúabænda að fylgjast vel með verðhækkunum á aðföngum og þjónustu vegna mjólkurframleiðslu og beita öllum tiltækum ráðum til að hafa áhrif þar á.
Tillaga 6.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, samþykkir eftirfarandi kjaramálaályktun:
• Fundurinn minnir á að mjólkurframleiðendur hafa tekið á sig umtalsverða kjaraskerðingu sem lið í aðgerðum til að ná fram raunlækkun matarverðs. Því er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að ná niður framleiðslukostnaði mjólkur. Brýnt er að stjórnvöld gangi nú þegar til samninga við Landssamband kúabænda um leiðir í þessu efni.
• Fundurinn skorar á stjórnvöld að raska ekki, með neikvæðum hætti, starfs- og samkeppnisumhverfi íslenskrar mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu með opinberum ákvörðunum umfram það sem alþjóðlegir samningar leiða af sér.
• Fundurinn telur það grundvallaratriði að ekki sé óvissa um þau réttindi og þær skyldur sem fylgja greiðslumarki til mjólkurframleiðslu og/eða greiðslum á grundvelli samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.
• Fundurinn leggur ríka áherslu á að heildsöluverðlagning einstakra mjólkurafurða endurspegli raunverulegan framleiðslukostnað betur en nú er.
Starfsnefnd 3.
Tillaga 1.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Kea Akureyri 13. og 14 apríl 2007, felur stjórn að Landssambands Kúabænda að leita allra leiða til að draga úr þeim kostnaði sem greiðalumarkskerfið ber með sér. Bendir fundurinn í því sambandi á eftirfarandi:
• Nauðsynlegt er að allar breytingar frá núgildandi kerfi séu ákveðnar og kynntar með löngum fyrirvara.
• Þótt núgildandi kerfi hafi stóra kosti fylgir því verulega íþyngjandi kostnaður fyrir greinina og rökstyðja má að verð á framleiðslurétti sé og hafi lengi verið of hátt.
• Einhver lagaleg óvissa virðist vera um útfærslu núgildandi kerfis.
Útflutningur mjólkurafurða kann að breyta viðhorfum til framleiðslustýringar gangi væntingar manna um skilaverð eftir.
Tillaga 2.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, skorar á landbúnaðarráðherra að fylgja eftir viljayfirlýsingu þeirri sem hann undirritaði þann 10.maí 2004 samhliða undirritun samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu.
Greinargerð:
Senn eru liðin þrjú ár frá undirritun núverandi mjólkursamnings. Samhliða þeim samningi skrifaði landbúnaðarráðherra undir viljayfirlýsingu sem er eftirfarandi:
„Til að bæta samkeppnisstöðu mjólkurvara og auka hagkvæmni í mjólkuriðnaði lýsir landbúnaðarráðherra yfir vilja sínum til að skoðað verði sérstaklega hvort hægt sé að draga úr opinberum eftirlitsgjöldum sem lögð eru á mjólkurframleiðsluna. Jafnframt lýsir landbúnaðarráðherra yfir vilja sínum til að láta kanna möguleika á samnýtingu greiðslumarks tveggja eða fleiri lögbýla.“
Í kjölfar þess að kúabændur gáfu eftir hluta á hækkunarþörf sinni á mjólk á liðnu hausti, samhliða öðrum aðgerðum ríkisvaldsins til lækkunar á matvælaverði, þá er enn frekar en áður ástæða að skoða möguleika á lækkun framleiðslukostnaðar kúabúa. Einn þáttur í því er að fylgja eftir umræddri viljayfirlýsingu.
Sem dæmi um innbyggðan kostnað í mjólkurframleiðslu eru hin ýmsu eftirlitsgjöld sem tekin eru víðsvegar í framleiðsluferlinu, má þar nefna eftirlitsgjald af cif-verði áburðar (0,25%), eftirlitsgjald af innfluttri sáðvöru (3,1%) og eftirlitsgjald af fóðurvöru 0,9%. Öll þess gjöld renna til Landbúnaðarstofnunar.
Að auki má nefna árlegt gjald vegna starfsleyfis og gjald til Vinnueftirlits ríkisins vegna dráttarvéla. Ýmis fleiri gjöld mætti nefna sem renna til opinberra aðila sem á einn eða annan hátt eiga sinn þátt í að framleiðslukostnaður í mjólkurframleiðslunni er eins hár og raun ber vitni.
Á sama hátt þarf að skoða í samstarfi við búgreinina hvaða möguleikar eru til að draga úr kostnaði við framleiðsluna.
Tillaga 3.
Aðafundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel KEA 13. og 14. apríl 2007 skorar á Landbúnaðarstofnun og Bændasamtök Íslands að gera merkingarkerfið á nautgripum og eftirlit með því fullvirkt strax, fyrr verður það ekki trúverðugt.
Greinargerð:
Ljóst er að sláturhús skila ekki númerum af slátruðum gripum inn í Mark. Einnig hefur borið á því að skráningar í Ískú hafa ekki skilað sér inn. Þetta getur leitt til þess að felldir gripir eru áfram inni í kerfinu og jafnvel greiddar á þá gripagreiðslur. Eftirlit um að gripir séu merktir er ekki nægjanlegt.
Tillaga 4
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel KEA 13. og 14. apríl 2007, samþykkir að leita eftir breytingum á mjólkursamningi eins og meðfylgjandi tafla ber með sér:
Hlutfall gripagreiðslna verði:
Fjöldi kúa Hlutfall óskertrar greiðslu
1 – 80 100 %
81 – 120 50 %
121- 170 0 %
Tillagan samþykkt með 18 atkvæðum gegn 5.
Tillaga 5.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel KEA 13. og 14. apríl 2007, felur samninganefnd bænda að leita eftir samkomulagi við ríkisvaldið um eftirfarandi áhersluatriði við útfærslu á fyrirkomulagi þess hluta ríkisstuðnings sem ætlað var að yrði minna markaðstruflandi: Verðlagsárið 2007/2008 verði umræddur stuðningur greiddur sem beingreiðslur á mjólkurframleiðslu. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að ráðstöfun umrædds stuðnings 2008/2009 og þá gert ráð fyrir að 30 milljónum verði varið til jarðræktarverkefna það ár.
Samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.
Tillaga 6.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel KEA 13. og 14. apríl 2007 beinir því til stjórnar LK að vinna að því að sett verði lög sem komi í veg fyrir að matvörur séu seldar undir kostnaðarverði á smásölumarkaði.
Greinargerð:
Íslensk matvælaframleiðsla er agnarsmá í alþjóðarlegum samanburði og því nauðsynlegt fyrir innlenda framleiðendur, að uppi séu lög og reglur er komi í veg fyrir undirboð sem eru til þess fallin að ná undir sig markaði.
Tillaga 7.
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri dagana 13. og 14. apríl 2007 samþykkir að beina því til stjórnar að hún vinni að því að skipuð verði fagleg nefnd er hafi það hlutverk að gera tillögu að samræmdu og einföldu kerfi (verklagi) þeirra er hafa með höndum eftirlit og leyfisveitingar fyrir framleiðslugreinar landbúnaðar. Í nefndinni eigi sæti fulltrúi frá BÍ og þeim búgreina- og fagfélögum sem málið varðar.
Greinargerð:
Á síðustu árum hefur vaxið mjög eftirlit með ýmsum framleiðslugreinum landbúnaðar með tilheyrandi gjaldtöku. Nokkuð skortir á að samræmi sé í verklagi og gjaldtöku eftir því hvar er á landinu. Það er í hróplegu ósamræmi við háværar kröfur um lækkandi matarverð að kostnaður bænda af þessu eftirliti hafi hækkað svo gríðarlega á síðustu árum sem raun ber vitni.
Starfsnefnd 4.
Tillaga 1.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007, beinir því til stjórnar, að kanna kosti þess að miðað verði við blautvigt í verðlagningu nautgripakjöts til framleiðenda.
Greinargerð:
Sú regla hefur verið í gildi að miða við 3% rýrnun falla af nautgripum frá blautvigtun við slátrun þegar greiðsluvirði þeirra er reiknað. Reynslan virðist hinsvegar sú að þessi rýrnun sé afar mismunandi eftir sláturhúsum og getur þar munað talsverðum upphæðum í virði fallanna. Sú spurning er því áleitin hvort ekki sé rétt að verðlagning nautgripafalla miðist við blautvigtun.
Tillaga 2.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007 beinir því til stjórnar LK að beita sér fyrir því að innlend búvöruframleiðsla verði á skýran og augljósan hátt aðgreind frá innfluttum afurðum með lögverndaðri og samræmdri merkingu. Eðlilegt er einnig að gera kröfu til að íslensk matvæli séu einnig merkt afurðastöð/ kjötvinnslu þannig að neytendum sé ljóst hver framleiðir vöruna.
Tillaga 3.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007 gerir þá kröfu til stjórnvalda að heilbrigðiskröfur til innfluttra landbúnaðarvara séu eigi lakari en þær kröfur sem gerðar eru til innlendrar framleiðslu.
Tillaga 4.
Aðalfundur Landsambands Kúabænda haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl 2007 beinir því til stjórnar LK að innihald hráefna til kjarnfóðurgerðar á innfluttu sem innlendu kjarnfóðri verði kannað til hlítar með það fyrir augum að gæta að sérstöðu og hreinleika landbúnaðarframleiðslu.