
Tilkynning vegna gæðastýringar í skýrsluhaldi í nautgriparækt
02.01.2009
Samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 2004 verður hluti af stuðningi ríkisins við mjólkurframleiðslu svokallaður óframleiðslutengdur og minna markaðstruflandi stuðningur og mun hlutfall þess háttar stuðnings fara vaxandi út samningstíma gildandi samnings.
Samþykkt hefur verið að ráðstafa þessum óframleiðslutengda stuðningi á þann hátt að, frá og með framleiðsluárinu 2008/2009, verði hann greiddur til þeirra framleiðenda er standast kröfur um gæðastýringu í skýrsluhaldi í nautgriparækt.
Settar hafa verið upp reglur um gæðakröfur í skýrsluhaldi með það að markmiði að bæta gæði skýrsluhaldsgagna og auka samræmingu í afurðaskýrsluhaldi þar sem slíkt skýrsluhald er grundvöllur að því sameiginlega ræktunarstarfi sem stundað er í nautgriparækt.
Framleiðsluárið 2008/2009 er áætlað til aðlögunar og um þetta fyrsta ár gæðastýringar gilda því eftirfarandi reglur:
a. Í janúar 2009, 1/3 af flatri greiðslu, auk 1/3 af greiðslu miðað við fjölda árskúa á skýrslu 2008. Áskilið er að viðkomandi býli sé með í uppgjöri skýrsluhalds í desember 2008 og hafi skilað skýrslum ársins 2008 fyrir 20. janúar 2009.
b. Í júní 2009, 1/3 af flatri greiðslu, auk 1/3 af greiðslu miðað við fjölda árskúa á skýrslu reiknað í þeim mánuði sem greitt er út. Áskilið er að viðkomandi býli sé með í uppgjöri skýrsluhalds í maí 2009. Skýrsluskil þurfa að vera regluleg, þ.e. fyrir 11. næsta mánaðar eftir mælingarmánuð. Skýrslu vegna maí 2009 sé skilað fyrir 11. júní 2009. Auk þess þarf að liggja fyrir a.m.k. ein niðurstaða úr kýrsýnum fyrir búið, teknum á fyrsta ársfjórðungi ársins 2009.
c. Í september 2009, 1/3 af flatri greiðslu, auk 1/3 af greiðslu miðað við fjölda árskúa á skýrslu reiknað í þeim mánuði sem greitt er út. Áskilið er að viðkomandi býli hafi skilað skýrslum með reglulegum hætti, þ.e. fyrir 11. næsta mánaðar eftir mælingarmánuð. Það skal hafa verið með í uppgjöri í ágúst 2009 og hafa skilað skýrslum fyrir 11. september 2009. Á þeim tíma skulu liggja fyrir a.m.k. tvær niðurstöður (tvö sett) kýrsýna fyrir búið. Skulu niðurstöður þessar vera af fyrsta og öðrum ársfjórðungi ársins 2009.
Samantekt:
Til að hefja þátttöku í gæðastýringu og öðlast hlutdeild í fyrstu greiðslu þarf skýrsluhaldari að hafa skilað afurðaskýrsluhaldi ársins 2008 með fullnægjandi skráningum fyrir 20. janúar 2009.
Skýrsluhaldari sem ekki nær að ganga frá afurðaskýrsluhaldi ársins 2008 fyrir 20. janúar hlýtur ekki hlutdeild í fyrstu greiðslu en hefur möguleika á að komast inn í gæðastýringu það sem eftir er verðlagsársins með því að ganga frá skýrsluhaldsárinu 2008 fyrir 11. febrúar 2009 ásamt janúarskýrslu ársins 2009.
Kröfur vegna greiðslna það sem eftir lifir verðlagsárs 2008/2009 eru þær að skila mjólkurskýrslum til uppgjörs fyrir 11. næsta mánaðar eftir mælingarmánuð og taka a.m.k eitt kýrsýni á ársfjórðungi fyrsta og annan ársfjórðung ársins 2009.
Vert er taka fram að þeir skýrsluhaldarar sem tekið hafa virkan og reglubundinn þátt í skýrsluhaldinu hingað til munu ekki verða mikið varir við breytingar vegna þessa en jafnframt er ljóst að fyrir einhverja þýðir þetta gagngerar breytingar á verklagi varðandi þátttöku í skýrsluhaldinu. Bændur eru hvattir til að leita nánari upplýsinga og aðstoðar hjá búnaðarsamböndum eða Bændasamtökum Íslands.