Beint í efni

Tilkynning frá framkvæmdastjóra Fóðurblöndunnar hf

15.03.2010

Eyjólfur Sigurðsson framkvæmdarstjóri FB vill vegna umfjöllunar á netmiðli LK, um áburðarmál og skuldastöðu FB, koma eftirfarandi á framfæri:

Starfsmanni Fóðurblöndunnar urðu á alvarleg mistök við útboð ríkisins á áburði fyrir ríkisstofnanir.  Þetta ber að harma og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.  Nú var það þannig að undirritaður var í stuttu fríi erlendis er þessi mál voru í vinnslu og þess vegna ekki verið svarað fyrr.

Margir kúabændur, svo og úrvinnslufyrirtæki og þjónustufyrirtæki í landbúnaði voru með skuldir í erlendri mynt fyrir bankahrunið.  Ástæður flestra voru að vextir af erlendu lánsfé höfðu verið og eru verulega lægri en af innlendu lánsfé að teknu tilliti til verðbólgu.  Nú er unnið að því að leiðrétta erlendar skuldir einstaklinga og fyrirtækja, samhliða yfirfærslu lána úr erlendri mynt yfir í innlend lán.  Það er íslenskum landbúnaði ekki síður nauðsynlegt en öðrum atvinnugreinum að fá sambærilega leiðréttingu erlendra lána við yfirfærslu í innlend lán.  Rekstrarhæfni mjólkurframleiðenda, afurðastöðva og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins skiptir sköpum varðandi framtíðarhæfni greinarinnar.  Hagsmunur bænda, afurðastöðva og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins eru því gagnkvæmir, varðandi sanngjarna skuldaleiðréttingu erlendra lána.

Ég fagna því að nú virðist vera kominn nokkur skriður á  leiðréttingu á erlendum lánum bænda og tengdra fyrirtækja.  Hagsmunasamtök bænda hafa lagt sitt á vogaskálina, svo málefni greinarinnar fái sanngjarna og eðlilega afgreiðslu í lánastofnunum.

Fóðurblandan vill eiga gott, heiðarlegt og traust samstarf við LK og efast ekki um að slíkt sé líka vilji stjórnenda LK.  Til að setja  samskiptamál og gagnkvæma upplýsingagjöf í sem traustastan farveg til framtíðar, hef ég óskað eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra LK.

Fóðurblandan hefur verið fóðurframleiðandi og þjónustuaðili við íslenskan landbúnað í 50 ár.  Fyrirtækið mun leggja metnað sinn í að standa sig sem allra best, bændum og íslenskum landbúnaði til hagsældar á komandi árum

 

Með kveðju


Eyjólfur Sigurðsson
Framkvæmdarstjóri Fóðurblöndunnar hf