Tilkynning frá BÍ vegna gæðastýrðs skýrsluhalds í nautgriparækt
03.09.2009
Bændasamtök Íslands hafa, í samráði við Landssamband kúabænda, sett fram reglur um gæðastýrt skýrsluhald í nautgriparækt fyrir verðlagsárið 2009-2010. Kröfur um skýrsluskil eru þær sömu og á fyrra verðlagsári, þ.e. að skýrslur þurfa að vera komnar inn til uppgjörs fyrir 11. næsta mánaðar eftir mælingarmánuð. Kröfur um kýrsýni kveða á um að eitt kýrsýni úr hverri mjólkandi kú skuli taka á hverjum ársfjórðungi almanaksársins. Til ráðstöfunar eru á næstkomandi verðlagsári 58 milljónir króna og líkt og á síðastliðnu verðlagsári eru 20% þeirrar upphæðar greidd út sem flöt greiðsla á skýrsluhaldsbú en 80% eru greidd út miðað við árskúafjölda búa.
Vakin er athygli á því að, vegna breytinga á skilgreiningu verðlagsárs, er næstkomandi verðlagsár 16 mánuðir. Verðlagsárið sem hér um ræðir hefst því 1. september 2009 og lýkur 31. desember 2010. Greiðslur fyrir næsta verðlagsár verða því fjórar, greiddar út fyrir fjögurra mánaða tímabil í senn.
Greiðsludagar eru í janúar 2010, maí 2010, september 2010 og janúar 2011. Þar sem verðlagsárið spannar síðasta ársfjórðung ársins 2009 og allt almanaksárið 2010 þurfa skýrsluhaldarar að skila að lágmarki niðurstöðum 5 kýrsýna fyrir hjörðina á þessu tímabili, einu fyrir síðasta ársfjórðung ársins 2009 og 4 fyrir árið 2010, ásamt því að hafa regluleg skýrsluskil samkvæmt ofangreindum kröfum.
Fyrir fyrstu greiðslu eru einungis gerðar þær kröfur að bú hafi staðist fyrstu 4 mánuði verðlagsársins en skilyrði fyrir annari, þriðju og fjórðu greiðslu er að búið hafi staðist kröfur um gæðastýringu frá upphafi verðlagsárs. Þetta þýðir að til þess að frá hlutdeild í annarri greiðslu þarf bú einnig að hafa staðist kröfur vegna fyrstu greiðslu o.s.frv.
Þau bú sem ekki náðu að standast kröfur um gæðastýringu á síðastliðnu ári geta að sjálfsögðu tekið þátt í gæðastýringu næsta verðlagsárs með því að byrja regluleg skýrsluskil og töku kýrsýna frá og með september 2009.
Ný skýrsluhaldsbú, geta skráð sig í skýrsluhald hvenær sem er yfir verðlagsárið. Í slíkum tilfellum miðast þátttaka í gæðastýringu frá fyrsta heila greiðslutímabili er búið er skráð í skýrsluhald. Ný skýrsluhaldsbú eru skilgreind sem bú sem ekki hafa verið í skýrsluhaldi á verðlagsárinu 2008-2009 eða bú sem hafa haft eigendaskipti á verðlagsárinu 2008-2009 eða seinna.
Hvetjum við skýrsluhaldara til að huga að þessum málum í tíma og muna að fyrsta skýrsla verðlagsársins þarf að vera komin inn til uppgjörs fyrir 11. október 2009. Hafið samband við Bændasamtök Íslands eða búnaðarsambönd ef aðstoðar eða frekari upplýsinga er þörf.