
Tilboðsmarkaður 3. apríl 2023 með greiðslumark í mjólk
07.03.2023
Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 3. apríl næstkomandi.
Frestur til að skila inn tilboðum rennur út 13. mars.
Að hámarki er hægt að óska eftir 50.000 lítrum til kaups á hverjum markaði, eða alls 150.000 lítrum árlega. Þá má hlutdeild framleiðanda eða framleiðenda sem eru í eigu einstakra aðila, einstaklinga, lögaðila eða tengdra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 1,2% af árlegu heildargreiðslumarki mjólkur. Nýliðar skulu eiga forkaupsrétt á 5% af því greiðslumarki sem boðið er til sölu á hverjum markaði, svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um gilt kauptilboð og að því gefnu að þeir bjóði verð sem er jafnt eða hærra en jafnvægisverð.
Einungis er heimilt að skila inn einu tilboði um kaup eða sölu fyrir hvert lögbýli og af sama aðila eða tengdum aðila. Tilboðsgjöfum er skylt að gæta að því að einungis eitt tilboð komi frá aðilum sem teljast tengdir. Óheimilt er að bjóða fram mismunandi verð í sama tilboði. Óheimilt er aðilum að gefa upp magn og verð sem tiltekið er í tilboðunum, sem opnuð eru á markaðsdegi. Sé það gert skal þeim tilboðum vikið til hliðar.
Tilboð gerð um kaup eða sölu á greiðslumarki eru bindandi á markaðsdegi.
Kaup- eða sölutilboð má draga til baka hvenær sem er innan hvers markaðstímabils, sem hefst að loknum hverjum markaðsdegi og stendur fram að þeim næsta.
Samkvæmt reglugerð nr. 348/2022 um stuðning við nautgriparækt, er hámarksverð greiðslumarks á markaðnum þrefalt afurðastöðvaverð.
Athygli er þó vakin á því að öll viðskipti sem fara fram á markaðsdegi fara fram á jafnvægisverði sem markaðurinn gefur í það sinn. Jafnvægisverð þarf ekki að vera hámarksverð.
Tilboðum um kaup og sölu greiðslumarks skal skila rafrænt á afurd.is.
- Tilboðsfrestur rennur út á miðnætti 13. mars nk.
- Tilboðsmarkaðurinn fer síðan fram þann 3. apríl nk.