Beint í efni

Tíðir tvíkelfingar og lífræn mjólkurframleiðsla í Kjósinni

27.06.2011

Sl. föstudagskvöld var í Kastljósi RUV fjallað um óvenjulega tíðni tvíkelfinga á kúabúinu að Káranesi í Kjós. Rætt var við Finn Pétursson bónda um málið, en á sl. 14 mánuðum hafa þar komið í heiminn fernir tvíkelfingar, 17. og 20. júní sl., 26. ágúst og 5. apríl 2010. Í þessum burðum komu í heiminn sjö kvígur og eitt naut, þannig að kynjahlutfallið má teljast heldur hagstætt. Feður þessara kálfa voru Aðall 02039, Ófeigur 02016, Krúsi 08014 og Glæðir 02001. Á þessu tímabili voru skráðir rétt rúmlega 100 burðir á búinu, þannig að tíðni tvíkelfinga var langt umfram það sem hefðbundið má teljast. Undanfarin ár hefur hún verið í kringum 1,5% í íslenska kúastofninum.

Umfjöllun Kastljóss um tvíkelfingana í Káranesi

 

Í frétta- og þjóðlífsþættinum Landanum í gærkvöldi, sunnudag, var fjallað um lífræna mjólkurframleiðslu á Neðra-Hálsi í Kjós, en þar reka Kristján Oddsson og Dóra Ruf kúabú. Auk þess hafa þau rekið úrvinnslufyrirtækið Biobú undanfarin ár, sem framleiðir m.a. jógúrt og skyr úr mjólkinni frá búinu. Rætt var við Kristján um lífrænt vottaða framleiðslu og það sem skilur hana frá hinni hefðbundnu, einnig um tilraunir með að nota sjó sem áburð. Þá er einnig ræktað grænmeti og ávextir og rölti Dóra með þáttarstjórnanda um gróðurhúsið./BHB.

 

Umfjöllun Landans um lífrænan búskap að Neðra-Hálsi