Beint í efni

Þyngdartap seinkar fyrsta beiðsli

04.03.2015

Ný bandarísk rannsókn, sem greint var frá í janúar hefti Journal of Dairy Science, sýnir skýrt að ef kýr lenda í verulegu þyngdartapi eftir burð þá seinkar það þroska gulbúa og þar með fyrsta beiðsli eftir burð. Alls náði rannsóknin til 768 nýbæra af Holstein kyni og voru þær skannaðar 17, 21 og 24 dögum eftir burð til þess að fylgjast með þroska gulbúanna.

 

Í ljós kom að ef nýbærurnar léttust um 4,7-5,0% miðað við eðlilegan líkamsþunga (28 kg m.v. 580-600 kg meðalþunga kúnna) þá seinkaði beiðsli þeirra. Það gerðist einnig hjá kúm sem lentu í erfiðleikum með burðinn sem og hjá þeim sem áttu í efnaskiptavandamálum stuttu eftir burð. Þær kýr sem báru á sumrin eða haustin voru einnig fyrr til en aðrar og þroski gulbúanna þar fyrr á ferðinni en hjá kúm sem báru á öðrum tímum ársins. Telja höfundar að skýringin felist í birtunni og beinir sjónum að lýsingu í fjósum að vetrinum til/SS.