Beint í efni

Þurrkar í Texas kosta kúabændur mikið

31.08.2011

Tíðarfarið í Texas fylki Bandaríkjanna hefur verið afar óhagfellt til landbúnaðar undanfarið en þar hefur varla komið dropi úr lofti í langan tíma. Þessi mikli þurrkur hefur nú kostað bændur í fylkinu afar mikið vegna tapaðrar uppskeru og minni beitargróðurs. Samkvæmt mati ráðgjafaþjónustunnar AgriLife nemur tap bænda í fylkinu nú alls 5,2 milljörðum dollara eða nærri 600 milljörðum króna og vegur nautgriparækt þungt í þeim útreikningum. Talið er að tjón nautgripabænda liggi nálægt 2,1 milljarði dollara eða um 240 milljörðum króna og vegur þar þyngst tap í nautakjötsframleiðslunni.

 

Tap bændanna kemur fyrst og fremst fram í lægra afurðaverði fyrir sláturgripina, þar sem holdfylling er undir viðmiðum auk þess sem gripirnir eru miklu léttari en vænta má. Til viðbótar hafa margir bændur neyðst til þess að senda stórar hjarðir í slátrun til þess að létta á landinu og hefur að leitt til lækkunar á afurðaverði. Þá hafa margir bændur neyðst til þess, vegna lítils beitargróðurs, að kaupa bæði gróffóður og kjarnfóður til þess að ná einhverjum bata í nautin.

 

Þessi ótíð í Texas er sú versta í manna minnum en fyrra „metið“ var sett árið 2006, þegar heildartap bænda vegna þurrka í fylkinu var talið nema 4,2 milljörðum dollara. Þess má geta að heildarvelta landbúnaðar í Texas er talin vera um 18,8 milljarðar dollara og er því ætlað tap nú rúmlega fjórðungur veltu greinarinnar/SS – USDA.