Þurrkar í Ástralíu koma illa niður á mjólkurframleiðslunni
16.01.2003
Yfirvöld í Ástralíu gera ráð fyrir að mjólkurframleiðslan á líðandi framleiðsluári (sem nær til júní 2003) dragist saman um 8% vegna mikilla þurrka sem herjað hafa á Ástralíu um langa hríð. Samdrátturinn er talinn bitna mest á ostaframleiðslunni og líkur á að 13,7% minni ostaframleiðsla verði á framleiðsluárinu.
Þá er gert ráð fyrir að smjörframleiðslan dragist saman um 7,3%, framleiðslan á undanrennudufti um 5,4% og á mysudufti um 6,3%. Jafnvel er búist við því að samdrátturinn verði enn meiri, þar sem þurrkasvæðin í Ástralíu eru heldur vaxandi.
Til fróðleiks má geta þess að samdrátturinn í ostaframleiðslunni einni og sér nemur rúmum 50 þúsund tonnum, eða hátt í tólffaldri ostaframleiðslu Íslands.