Beint í efni

Þurfa að endurgreiða styrki frá Evrópusambandinu!

29.04.2011

Evrópusambandið hefur nú gert nokkrum af aðildarlöndum sínum að endurgreiða landbúnaðarstyrki sem sambandið hafði áður veitt. Um er að ræða gríðarlega háa upphæð, amk. í íslenskum krónum, eða heila 87 milljarða króna (530 milljónir evra). Skýringin á endurgreiðslukröfunni liggur í skorti á eftirliti í þessum löndum eða þá staðreynd að löndin fara ekki að kröfum Evrópusambandsins varðandi uppbyggingu landbúnaðarkerfisins.

 

Aðildarlönd Evrópusambandsins eru ábyrg fyrir því að sjá um útborgun landbúnaðarstyrkja innan landanna og eiga einnig að sjá til þess að eftirlitið með eigin kerfi sé tryggt. Þetta hefur ekki alveg farið eins og stjórn Evrópusambandins ætlaði og eru nú 10 lönd krafin um endurgreiðslur, þar á meðal frændur okkar Danir en auk þeirra eru á listanum löndin Búlgaría, Grikkland, Spánn, Frakkland, Ítalía, Holland, Portúgal, Rúmenía og Stóra-Bretland.

 

Mestu syndararnir, samkvæmt þessu mati Evrópusambandsins, eru Grikkir og eiga þeir að endurgreiða 260 milljónir evra (43 milljarða króna). 137 milljónir evra vegna þess að þeir greiddu bændum styrki sem þeir áttu ekki rétt á og 123 milljónir evra í sekt fyrir slakt eftirlit með hektarastyrkjum. Næstir í röðinni eru Rúmenar sem þurfa að endurgreiða 75 milljónir evra (12 milljarða króna) fyrir svipaðar sakir og Grikkir og þá Spánverjar sem þurfa að endurgreiða svipaða upphæð og Rúmenar. Spánverjar skautuðu létt fram hjá styrkjareglum varðandi meðferð á umhverfisvænum umbúðum og þurfa þess vegna að borga til baka. Auk þess styrktu þeir ávaxta- og grænmetisræktina umfram heimildir hins stóra bróður í Brussel. Í fjórða sæti á þessum vinsældalista Evrópusambandins eru Bretar með 27 milljónir evra í endurgreiðslu (5 milljarða króna) vegna skorts á eftirliti með ávaxta- og grænmetisbændum og í fimmta sæti sitja Hollendingar með 23 milljarða evra í endurgreiðslu (4 milljarða króna) fyrir að styrkja framleiðendafélag bænda í ávaxta- og grænmetisframleiðslu. Önnur lönd á listanum eru með mun minni upphæðir á þessari sakaskrá Evrópusambandins/SS.