Þú græðir á lágri frumutölu!
11.05.2013
Frumutala tankmjólkur er nátengd tíðni duldrar júgurbólgu í hjörðinni og kemur þessu fullyrðing nú væntanlega fáum kúabændum hér á landi á óvart. Oft getur þó verið erfitt að reikna út hvað frumutalan kostar í raun en belgískir vísindamenn settu fram ágæta tilgátu í því sambandi í nýjasta tímariti M2-magazine sem fjallar eingöngu um júgurheilbrigði. Þar hvetja þeir kúabændur til þess að berjast með ráðum og dáð að því að lækka frumutöluna í tankinum, þar sem því fylgi margir kostir fyrir bæði bændurna sjálfa og afurðastöðvarnar.
Tvö atriði eru sérstaklega talin upp sem skipta bóndann verulegu máli þegar frumutalan í tankinum lækkar.
1. Minna stress og ánægðari bændur:
– Í mörgum löndum hefur komið fram að þar sem frumutalan er há í tankmjólkinni eru kúabændurnir stressaðari og líður ekki eins vel og þar sem frumutalan er lág. Ennfremur sýna rannsóknir að þegar kúabændur eru spurðir um hvað það er sem truflar þá mest þá eru svörin: auka vinna og leiðindi tegnd júgurbólgu hjá kúm.
2. Aukin arðsemi:
– Auknar meðalafurðir! Þegar frumutalan í tankmjólkinni er jöfn eða hærri en 200.000 frumur/ml þá sýna rannsóknir að meðalafurðir lækka á búum sem nemur 2,5% fyrir hverjar 100.000 frumur/ml.
– Færri júgurbólgumeðhöndlanir! Kýr með frumutölu um og yfir 200.000 frumur/ml eru tvisvar til fjórum sinnum líklegri til þess að fá sýnilega júgurbólgu en kýr sem eru með minna en 200.000 frumur/ml. Af þessu leiðir að kostnaðaráhættan við frumuháar kýr er verulega miklu meiri enda kostar hvert júgurbólgutilfelli, samkvæmt sömu grein, á bilinu 165-235 pund (30.000-42.000 íkr).
Upphæðirnar er erfitt að heimfæra á íslenskar aðstæður og trúlega er kostnaðurinn hér á landi enn meiri. Hver og einn getur í raun skoðað þetta á sínu búi og séð þannig ætlað tap vegna hárrar frumutölu. Til þess að unnt sé að gera það þarf að taka með í reikninginn: ætlað framleiðslutap vegna frumutölunnar, aukna hættu á ótímabærri slátrun og/eða aflífun með tilheyrandi tekjutapi, meðhöndlunarkostnað, kostnað við mjólk sem þarf að hella niður og auka vinnu.
Þeir sem vilja fræðast nánar um júgurheilbrigði má m.a. benda á hið áhugaverða tímarit M2-Magazine en hægt er að lesa eldri útgáfur þess án endurgjalds á netinu. Einnig má gerast áskrifandi að blaðinu en tímaritið kemur út nokkrum sinnum á ári og er á ensku. Heimasíða þess er: www.rekad.be/de/magazines/m%C2%B2-magazine/home /SS.