
Þú getur haft áhrif á nýja byggðaáætlun
02.02.2021
Nú stendur yfir vinna stjórnvalda að nýrri byggðaáætlun þar sem römmuð er inn stefna ríkisins í byggðamálum. Meginmarkið byggðaáætlunar er samkvæmt lögum að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um allt land. Sérstök áhersla er lögð á svæði sem hafa búið við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og fábreytni í atvinnulífi.
Vegna mikilvægi þess að málefni landbúnaðar og frumframleiðslu matvæla fái vægi inn í stefnumótunarvinnuna hafa Bændasamtök Íslands stofnað starfshóp til að halda utan um og að draga saman áherslur landbúnaðarins. Í hópnum starfa Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá BÍ, Karvel Lindberg Karvelsson, framkvæmdastjóri RML og Katrín María Andrésdóttir, framkvæmdastjóri SG.
Óskað eftir tillögum og hugmyndum fyrir 11. febrúar
Til að ná fram sem flestum sjónarmiðum hefur starfshópurinn ákveðið að óska eftir tillögum og ábendingum frá bændum og starfsfólki sem starfar innan félagskerfis landbúnaðarins. Viðfangsefnið er að finna út með hvaða hætti hægt er að styðja við landbúnað með fyrrgreind markmið að leiðarljósi.
Starfshópurinn hvetur sem flesta til að nýta tækifærið og leggja fram tillögur og hugmyndir um beinar aðgerðir sem mögulega fást settar í byggðaáætlun.
Frestur til að skila hugmyndum er til og með fimmtudeginum 11. febrúar 2021 á netfangið gj@bondi.is. Æskilegt er að fram komi í stuttu máli hver hugmyndin sé, hvert markmiðið er og hverju hún eigi að skila.