Beint í efni

Þróunin ólík á milli landa

15.09.2017

Við sögðum frá því á mánudaginn að í Danmörku æðir bústærðin áfram en sé horft til suðurs og alla leið til Kenía er staðan allt önnur. Þar hefur þróunin ekki verið hröð og raunar er markaðurinn þar í landi enn í þróun enda ein helsta söluleið mjólkur beint frá býli og þá seld volg. Ótal kúabú sinna framleiðslunni og er t.d. talið að á bak við ársframleiðslu landsins upp á 3,1 milljarð  kílóa mjólkur standi rúmlega 1 milljón kúabúa. Þrátt fyrir gríðarlegan fjölda búa er mjólkuriðnaður landsins ekki mjög þróaður og gæðaeftirlit með hrámjólk er ekki sérlega öflugt. Þá er söfnun mjólkur afar frumstæð enn sem komið er.

Þegar kúabúskapur landsins hefur verið skoðaður af sérfræðingum hefur verið beint á það að fljótlegasta leiðin til þess að efla framleiðsluna væri að bæta söfnun mjólkurinnar og það stendur nú einmitt til í Nyamira sýslu í suð-vestur Kenía, þar sem afurðafélagið Brookside Dairy er með starfsemi. Félagið hefur nú gefið út að það stefni á töluverða stækkun sem m.a. byggi á því að efla umsvifin á sviði söfnunar mjólkur og því samhliða verði tekin upp gæðaflokkun mjólkur og muni bændur fá greitt eftir efnainnihaldi mjólkur. Hingað til hefur gæðaeftirlitið fyrst og fremst falist í mælingu á sýrustigi mjólkurinnar en sé hún súr bendir það jú til aukins innihalds af bakteríum. Það má því búast við miklum breytingum á mjólkurframleiðslu landsins á komandi árum og ekki vanþörf á/SS.