Beint í efni

Þróun stórra kostnaðarliða í mjólkurframleiðslu 2006 til 2008

31.01.2008

Á undanförnum misserum hafa orðið miklar breytingar á rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar, einkum og sér í lagi á síðari hluta ársins 2007. Í meðfylgjandi töflu hefur verið tekin saman verðþróun stórra kostnaðarliða í mjólkurframleiðslunni, þ.e. á kjarnfóðri (16% blöndu), áburði (24% N, 9% P, 8% K), kjörvöxtum verðtryggðra skuldabréfa og dieselolíu, frá ársbyrjun 2006 til ársbyrjunar 2008. Verð á áburði, kjarnfóðri og olíu er miðað við góð viðskiptakjör.

 

Eins og sjá má eru hækkanirnar algerlega svimandi, áburðurinn nær tvöfaldast í verði á þessum tíma og vextir hækka í svipuðum takti, um nærri 80%. Það er því ekki skrítið þó bankastjórar þessa lands geti gumað af góðri afkomu. Kjarnfóður og olía hækka svo um nærri helming á tímabilinu. Á sama tíma hækkar mjólkurverð til bænda um tæp 10% og almennt verðlag um rúm 13%.

 

2006 2008 Breyting
Áburður, 24-9-8, kr/tonn 26.668 52.500 96,9%
Kjörvextir verðtryggðra lána, % 4,9 8,9 81,6%
Kjarnfóður, 16% blanda, kr/kg 31 47 51,6%
Dieselolía, kr/ltr 53,3 78,9 48,0%
Launavísitala Hagstofu Íslands* 273,9 326,6 19,2%
Vísitala neysluverðs, almennt verðlag 249,7 282,3 13,1%
Lágmarksverð mjólkur til bænda, kr/ltr 45,45 49,96 9,9%

* launavísitölur í des. 05 og des. 07.

 

Ótaldar eru verðhækkanir á öðrum kostnaðarliðum, sem hafa verið umtalsverðar á tímabilinu. Síðan má velta fyrir sér hvað þetta þýðir fyrir mjólkurframleiðsluna í heild. Tvöföldun á áburðarverði þýðir u.þ.b. 4-5 kr/ltr. Meginhluti þeirrar hækkunar dynur á bændum á komandi vikum. Hvert prósentustig í vöxtum kostar greinina í heild um 250 milljónir á ári, fjögur prósentustig þýða um 8 kr/ltr. Að vísu hafa margir skipt yfir í gengistryggð lán á tímabilinu með lægri vöxtum, kostaðaraukinn er engu að síður gríðarlegur og er þegar kominn fram. Þessi verðhækkun á kjarnfóðri þýðir aðrar 4-5 kr/ltr. Verðhækkun á olíu er síðan 0,5 kr/ltr í aukinn kostnað. Hækkanir á kjarnfóðrinu þurfa bændur að bera að miklu leyti og hafa ekki komið fram í verðlagi enn sem komið er.