Beint í efni

Þróun ræktunarmarkmiðs og dómskala – myndband frá fundi á Selfossi 5. apríl

13.04.2018

Fagráð í hrossarækt hélt tvo fundi nýverið um þróun og endurskoðun ræktunarmarkmiðsins og dómskalans í kynbótadómum. Sveinn Steinarsson formaður fagráðs og Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður hrossaræktar kynntu stöðuna á verkefninu og þær hugmyndir sem eru í farvatninu. Eftir það var fundarfólk var virkjað til umræðu um málefnið, hópnum var skipt upp í minni hópa og niðurstaða umræðunnar í hverjum hóp kynnt í lokin. Góð þátttaka var í fundunum og góðar hugmyndir komu fram sem fagráð getur nýtt sér í áframhaldandi vinnu.

Aðal markmið vinnunnar er eins og fyrr segir að þróa og skilgreina nánar ræktunarmarkmiðið fyrir íslenska hestinn. Það innifelur í sér m.a. þróun dómskalans þar sem stefnan er að auka áherslu á rétta líkamsbeitingu hestsins á öllum gangtegundum, auka vægi gæða gangtegunda á öllum hraðastigum umfram áherslu á hraða. Einnig er markmið að aldurstengja kröfur í hæfileikadómi eins og hægt er. Hefur t.d. í því sambandi verið reifuð sú hugmynd að meta fjögurra vetra hross á kjörhraða á gangtegundum, minnka kröfur um útfærslur og sýningu á þeim á mismunandi hraðastigum og auka svo kröfurnar með aldri hestsins. Þá voru ræddar á fundunum hugmyndir um þróun á útfærslu matsins á byggingu og hæfileikum í því augnamiði að samræma matið enn betur, auka við þær upplýsingar sem dómurinn gefur ræktendum og fjölga þeim hestgerðum sem koma til dóms.

Fundirnir voru haldnir á Selfossi og Sauðárkróki. Fundinum sem haldin verður á Selfossi var streymt á facebook síðu Félags hrossabænda.