Þróun LIBOR vaxta á yenum og frönkum
06.02.2009
Í gær birtist ágætur pistill á vefsíðu Búnaðarsambands Suðurlands um lækkandi vexti á millibankamarkaði erlendis, sk. LIBOR (London Interbank Offered Rate) vöxtum. Á vefsíðu félags breskra bankamanna má finna upplýsingar um þróun þessara vaxta á ýmsum gjaldmiðlum mörg ár aftur í tímann. Nýjustu vaxtatölur eru svo viku gamlar en töflurnar eru uppfærðar daglega. Á myndinni hér að neðan má sjá þróun eins og tólf mánaða Libor á yenum og svissneskum frönkum undanfarin tvö ár. Eins og sjá má má nánast tala um hrun á vöxtum svissnesks franka undanfarnar vikur. Þeir stigu í 3% í haust, um það leyti sem fjármálakerfið hér á landi var að syngja sitt síðasta en voru komnir niður í 0,3133% þann 29. janúar sl.
Landssamband kúabænda tekur svo eindregið undir með BSSL að bændur veiti því sérstaka athygli hvort þessi vaxtalækkun skili sér ekki alveg örugglega á greiðsluseðilinn!
Þess má svo geta að á forsíðu heimasíðu bankamannanna bresku er auglýst námskeið í áhættustjórnun sem fram á að fara þann 11. febrúar n.k. Það er vonum seinna að slíkt námskeið sé haldið.