Beint í efni

Þröstur Aðalbjarnarson gefur kost á sér til formanns LK

05.11.2020

Þröstur Aðalbjarnarson, bóndi á Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formanns Landssambands kúabænda. Kosið verður um formann á aðalfundi samtakanna á morgun. Herdís Magna Gunnarsdóttir hafði áður gefið kost á sér í embættið og því eru tvö í framboði.

Meðfylgjandi er kynning frá Þresti á sér og málefnum sem eru honum ofarlega í huga.

Stakkhamri 5.nóvember 2020

Ágætu félagar,

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Landssambands kúabænda.

Ég heiti Þröstur Aðalbjarnarson, ég er Öxfirðingur sem býr á Snæfellsnesi. Ég er giftur Laufeyju Bjarnadóttur og búum við á Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Við Laufey höfum verið í búskap frá árinu 2003. Ég er með kandídatspróf í búsvísinum frá Landbúnaðarháskóla Íslands

Ég hef löngum fylgst náið með félagsmálum bænda og hef starfað að þeim á ýmsum vettvangi. Ég tel mig hafa ágætis heildar yfirsýn yfir hagsmuni kúabænda.

Ef ég fæ brautargengi í þessum kosningum þá mun ég að fullri einurð og áhuga standa að og berjast fyrir hagsmunum greinarinnar.

Grunnforsenda þess að samtök eins og Landsamband kúabænda virki sem hagsmunasamtök er sem stærsti hluti kúabænda sjái hag sinn í að vera meðlimir. Ef svo á að verða þá þurfa allar skoðanir fá að heyrast og mismunandi skoðanir eiga rétt á sér. Það á að vera rými í okkar samtökum að ræða málin til hlýtar án þess að menn eða málefni séu fordæmd fyrir það eitt að vera á annarri skoðun en næsti maður. Til að auka slagkraft samtakanna þurfum við að hvetja þá kúabændur sem ekki eru hérna innanborðs með okkur að hoppa um borð og láta ljós sitt skína.  Okkur veitir ekki af því að hafa sem flesta um borð til að taka í árarnar til að vinna að okkar sameiginlegu hagsmunamálum sem og að móta greinina til framtíðar.

Ég tel að eitt mikilvægast verkefni verðandi stjórnar verði að virkja félagsmenn til virkrar þátttöku  í umræðum um málefni greinarinnar.

Hér að neðan læt ég fylgja lista yfir ýmis málefni sem við þurfum að ræða og taka afstöðu til á komandi vikum, mánuðum og misserum. Ég hvet alla kúabændur að láta sér hagsmunamál greinarinnar varða og láta heyra í sér á málefnalegum grunni.

 • Félagsaðild
  • Hvernig á að auka félagsaðild?
  • Nauðsynlegt er að greina félagatal LK í þeim tillgangi að komast að því afhverju hluti kúabænda ákveða að vera ekki félagar í LK. Mjög mikilvægt er að sem allra flestir kúabændur sjái nauðsyn þess að vera aðilar að hagsmunasamtökum kúabænda.
   • Það má velta því fyrir sér hvort félagsgjaldið sé of hátt, það er þó mun lægra en búnaðargjaldið var á sínum tíma. Til að halda úti öflugum hagsmunasamtökum þarf talsverða fjármuni.
   • Eða er það eitthvað í stefnu félagsins sem fælir hluta bænda frá því að gerast félagar, mikilvægara en nokkru sinni að auka samstöðu bænda um hagsmunasamtökin.
 • Félagskerfið
  • Þarf að vinna hratt að einföldun þess til þess að gera félagskerfið hagkvæmara og skilvirkara fyrir allan landbúnað í landinu.
  • Það þarf að efla hagsmunagæsluna bæði fyrir nautgriparæktina og þar sem samlegð er með öðrum búgreinum þarf að vinna þvert á þær. Með því verður slagkrafturinn meiri. Gott dæmi er hvernig er að spilast úr „innflutnings tollamálinu“ þessi dægrin.
 • Hagsmunagæsla innan greinarinnar
  • Hagsmunir bænda og úrvinnsluiðnaðarins fara að langmestu saman. Bændur verði þó að veita iðnaðinum, hvort heldur sem er í mjólkur- eða kjötgeiranum, aðhald við verðlagningu, sölu, útflutning, innflutning og vöruþróun.
 • Kynbótastarf
  • Koma erfðamengisúrvali í gagnið sem fyrst, ljúka fjármögnun innleiðingar og þeirra verkefna sem henni fylgja sem og fjármögnun á rekstri verkefnisins til framtíðar. Ákvarða þarf kostnaðarskiptingu milli bænda og framkvæmdaaðila.
  • Kannað verði ítarlega hvaða möguleika erfðamengisúrval færir greininni varðandi ýmsar nýjungar í kynbótarstarfi; kyngreining á sæði, fósturvísaflutningar úr úrvals kvígum o.s.frv.
  • Fanghlutfall í fósturvísaflutningum virðist vera til muna lakara hér á landi en annars staðar. Mikilvægt er að kanna hvaða ástæður kunna að liggja þar að baki.
  • Nýjar skilgreiningar við kynbótamat á frjósemi sem byggja á sæðingagögnum verði innleiddar sem allra fyrst.
 • Nautakjötsframleiðsla
  • Halda áfram að stuðla að eflingu fagmennsku í eldi nautgripa til kjötrframleiðslu.
   • Stöðlun vöru er nauðsynleg til þess að neytendur geti gengið að vísum gæðum íslensks nautakjöts.
 • Koma böndum á innflutning mjólkur- og kjötvara
  • Það þarf að hafa góðar gætur og stöðuga vöktun á því hvernig haldið er á innflutningi á mjólk og nautakjöti.
   • Hvernig haldið er á tollum
    • Hvernig er tollað, í hvaða tollflokk varan er skráð.
    • Hvernig haldið er á tollsamningum. Endurskoðun á tollasamningi við ESB er nauðsynleg enda forsendubrestur fyrir honum alger (BREXIT).
 • Mjólkurframleiðsla þessi misserin
  • LK þarf að taka afstöðu til þess hvernig á að vinna á þeim mikla efnahalla sem er í framleiðslukerfin. Nú er 22,6 milljón lítra munur á sölu á fitu og prótein grunni. Til hvors efnaþáttarins á að taka þegar ákvörðun um heildargreiðslumark er ákvarðað?
  • Hvernig er eðlilegast að gera upp umframframleiðslu hvers árs
   • Væri eðlilegara að skipta upp árinu
    • Gera upp ársfjórðungslega?
   • Þessi mál þarf að ræða. LK getur ekki skorast undan að taka afstöðu til þessara atriða. Bændur þurfa að fá skilaboðin frá markaðinum hvernig gengur að afsetja framleiðsluvörur þeirra. Í núverandi stöðu er greinin að verja stórfé í að framleiða prótein sem selt er á hrakvirði eða næst alls ekki að selja nú um stundir.
 • Endurskoðun búvörusamninga 2019
  • Þarf að klára 2019 endurskoðunina. Enda átti að klára það með kosningu þeirra atriða sem útaf stóðu eigi síðar en maí 2020.
  • Það þarf að skýra afhverju hámarksverð á kvótamarkaði var ákvarðað þrefalt afurðastöðvaverð en ekki tvöfalt eins og aðalfundur LK 2019 ályktaði um. Minnt er á að ráðherra landbúnaðarmála undirritaði bókun við endurskoðun nautgripasamnings í nóvember 2019 þar sem kveðið er á um að verð á greiðslumarki verði aldrei hærra en þrefallt afurðastöðvaverð. Frjálsri verðlagningu var þar með ýtt út af borðinu.
 • Endurskoðun búvörusamninga 2023
  • Búvörusamningar eru síkvikt skjal sem þarf í raun að vera í stöðugri skoðun og þróun. Það styttist óðum í 2023 endurskoðunina.
  • Það þarf að undirbúa þá endurskoðun mjög vel svo að sem breiðust sátt náist um hana innan okkar raða. Því samstilltari sem við verðum sem búgrein því líklegra er að við náum samningum við ríkið sem verður okkur flestum að skapi. Mikilvægt er að sú endurskoðun verði unnin með hliðsjón af vinnu stjórnvalda við mótun landbúaðarstefnu.
  • Það er nauðsynlegt að forystufólk LK eigi djúpt samtal við sem flesta bændur í greininni svo að flest sjónarhorn komi fram.
  • Það er nauðsynlegt að gera greiningu á því hvernig bændur sjái sinn búskap þróast næstu misseri og ár. Þannig verður hægt að móta stefnu sem byggist á grasrótinni en ekki einungis á þeim sem hafa hæst og eru óhræddastir að láta ljós sitt skína.
  • Nokkrir punktar um framtiðarsýn sem í mínum huga verður að ræða með opnum hug og án fordóma.
   • Er eðlilegt að markaðsaðgangur fyrir mjólk og réttur til stuðnings gangi kaupum og sölum.
    • Ef svo er hvert er eðlilegt verð.
    • Ef svo er hvað þolir greinin að verð á greiðlsumarki sé.
    • Ef svo er hvernig lítur skattgreiðandinn á það að hluti stuðnings fari í fjármögnun á rétti og stuðningi. Eða lítur hann á þennan stuðning sem fjármunum illa varið.
    • Er eðlilegt að kaup á greiðslumarki sé eignfært í bókhaldi bænda.
   • Það þarf að gera sviðsmyndagreiningu á framleiðslukerfum þannig að hægt sé að mynda sér skoðun á því út frá gögnum hvaða framleiðslukerfi á að stefna að því að nota.
    • Skoða hvernig fjármunir muni nýtast greininni sem best.
    • Þarf að hafa einhverja félagslega þætti með í jöfnunni og meta að verðleikum.
    • Hvað hátt gjald fyrir greiðslumark þýðir fyrir greinina.
    • Hvað lágt gjald fyrir greiðslumark þýðir fyrir greinina.
    • Hvernig er hægt að nýta stuðningskerfið til að viðhalda æskilegu jafnvægi á mjólkurmarkaði?
    • Hvernig á verðlagninu á mjólk að vera háttað.
   • Það þarf að skoða hvernig ættliðaskipti geti orðið.
    • Með hvaða hætti ungir bændur geti farið að undirbyggja sinn lífeyrissjóð út úr rekstri í stað að verða byggja sinn lífeyrissjóð í formi eignarmyndunar sem þarf síðan að innleysa á efri árum.
    • Tryggja hægstæð lán (t.d. hlutdeildarláni úr ríkissjóði vaxtalaus/afborgunarlaus til 20 ára).
    • Eldri kynslóð geti dreift söluhagnaði til 20 ára.
   • Hvernig er hægt að ná ákvæðum um árlega skerðingu framlaga út úr samningnum (sk. vatnshalli) Með sama áframhaldi verður hann um síðir einskis virði.

Þetta er engan veginn tæmandi listi málefna sem þarf að ræða næstu misserin.

Hvernig verður nautgriparæktin best í stakk búin til að takast á við auknar kröfur um aðbúnað dýra, lágmarks umhverfisáhrif, samkeppni frá staðkvæmdavörum úr plönturíkinu og sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu bænda og búaliðs? Ég er tilbúinn að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að finna leiðir að framangreindum markmiðum.

Að endingu hvet ég félagsmenn LK að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félagsins. Við þurfum á öllu góðu fólki að halda. Við eigum ekki að láta landshluta skiptingu aftra okkur í að bjóða okkur fram. Við erum einfaldlega of fá til að draga okkur í þá dilka.

Með kveðju,

Þröstur Aðalbjarnarson

Stakkhamri